Áfram Röntgenhátíð!

Eins og frá var greint í frétt Arnartíðinda virtist það almennt álit gesta á Röntgenhátíðinni 2005 að hátíð í þessum dúr ætti að verða árlegur viðburður héðan í frá. Ef strax er farið af stað með undirbúning fyrir næsta ár verður vinna við hann mun léttari og kemur síðan til með að léttast ár frá ári. 

Reyndir og nýir nefndarmenn
Hægt er að hugsa sér að einn núverandi nefndarmaður frá hverjum af stærstu vinnustöðunum sæti áfram, í næstu nefnd, en einn nýr yrði tilnefndur frá hverjum stað. Að sjálfsögðu á svo að nýta duglegt og viljugt fólk sem vinnur á öðrum stöðum, ef það gefur kost á sér. Félög röntgenlækna og geislafræðinga gætu einnig átt sína fulltrúa.

Byrjum strax á undirbúningi
Þessi nefnd þarf svo strax að ákveða dag fyrir Röntgenhátíð næsta árs. Röntgendagurinn er á miðvikudegi 2006 þannig að hægt er að velja um 5. og 11. nóvember, panta sal og byrja strax að leita eftir fyrirlesurum. Til dæmis ætti ekki að vera erfitt að fá fólk frá þróunardeildum ýmissa fyrirtækja til að segja frá áhugaverðum hlutum sem eru í farvatninu, WIP- verkefnum (work in progress). Slíkt hefði einnig auglýsingagildi fyrir fyrirtækin og ætti alls ekki að verða kostnaðarsamt. Fjáröflun gengur betur ef snemma er farið af stað og með tímanum gætum við eignast fasta kostunaraðila. 

Fræðumst af þeim sem gera vel
Það væri vel viðeigandi á Röntgenhátíð að heiðra nokkra sem hafa unnið sérstaklega áhugavert starf í faginu það árið, rannsóknavinnu, nýjungar í starfsemi, greinaskrif, fyrirlestra á ráðstefnum, “postera” o.fl., og fá fólkið til að kynna árangur vinnu sinnar. Einnig mætti heiðra einhvern úr röðum eldra fólks í faginu, t.d. þá sem nýlega hafa látið af störfum vegna aldurs, og þá einnig fá það fólk til að segja frá einhverju minnisstæðu á starfsævinni.
Að sjálfsögðu mundi hátíðin enda á góðu partýi, eins og á laugardaginn var, enda einn megintilgangur svona hátíðahalda að hrista fólk í faginu saman!

Samkeppni hindrar ekki samstöðu
Aukin samstaða ásamt skýrari og meira spennandi ásýnd út á við er undirstaða aukinnar farsældar þeirra sem starfa að myndgreiningu. Það má ekki gleymast í daglegri samkeppni. Síðasta helgi var frábær, meira af þessu!

07.11.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is
  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *