Afmæliskveðjur 26.08.03

Þann 26. ágúst 2003 var ár liðið síðan Arnartíðindi og vefsetur Rafarnarins tóku á sig núverandi mynd. Margt myndgreiningarfólk sendi okkur kveðju og við þökkum öllum innilega fyrir!
01.09.03 Edda Aradóttir.



Myndgreiningardeild FSA
sendir Arnartíðindum heillaóskir í tilefni eins árs afmælis vefsíðunnar. Raförninn, með Smára Kristinsson í broddi fylkingar, á mikinn heiður skilið fyrir framtakið. Við norðanfólk erum afar stolt af okkar konu, Eddu Aradóttur, sem hefur ritstýrt vefnum af miklum metnaði og eljusemi. Vefsíðan er mikið heimsótt hér og eftirtektarvert að hún er upphafssíða netsins á fleiri en einni tölvu hér á deildinni. Ég hvet alla í myndgreiningargeiranum til þess að styðja við bakið á vefsíðunni og gerast virkir þátttakendur með því að senda inn efni af sem fjölbreyttustu tagi.
Bestu kveðjur
Halldór Benediktsson, yfirlæknir myndgreiningardeildar FSA.


Fyrir hönd Myndgreiningarþjónustu Landspítala-háskólasjúkrahúss
sendi ég Arnartíðindum bestu afmælisóskir á eins árs afmælinu. Þrátt fyrir að vefurinn hafi ekki verið starfræktur lengur en eitt ár á þessu formi hefur hann fest sig í sessi sem mikilvægt samskiptatæki fyrir íslenska myndgreiningu. Sérstaklega er hann þýðingarmikill í ljósi þess hve víða öflug myndgreining er rekin og á mismunandi forsendum, því er nauðsynlegt að hafa sameiginlegan fræðslu- og fréttavettvang.
Sérstaklega vil ég óska ritstjóranum Eddu Aradóttur til hamingju, en hún hefur sýnt fádæma dugnað við að afla áhugaverðs efnis fyrir vefinn og er metnaður hennar fyrir hönd fagsins og Arnartíðinda lofsverður.
Með bestu kveðju í nútíð og framtíð,
Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri Myndgreiningarþjónustu LSH.


Takk, virðingarfyllst!
Eins árs afmæli Arnartíðinda var til umræðu á kaffistofu myndgreiningardeildar Hjartaverndar í morgun. Sú umræða einkenndist af þakklæti til Rafarnarins fyrir að halda uppi metnaðarfullum íslenskum miðli um myndgreiningu og allt sem henni tengist. Það má a.m.k. ráða af viðbrögðum starfsfólks á okkar deild að Arnartíðindi eru vinsælt lesefni enda má oft sjá marga starfsmenn vafra um gulu heimasíðuna geðþekku, þó sérstaklega á mánudagsmorgnum en sá tími virðist hafa haslað sér völl sem Arnartíðinda “præm-tæm”. Fyrir utan að hafa aðgang að íslenskum vef sem er uppfullur af faglegu fræðsluefni, þá hefur okkur einnig fundist dýrmætt og skemmtilegt að fá fréttir af öðrum í bransanum hér á íslandi og þær fréttir hafa endurspeglað þá miklu grósku sem nú á sér stað í myndgreiningu. Við óskum ykkur starfsmönnum Rafarnarins hjartanlega til hamingju með afmæli Arnartíðinda og þökkum gott og óeigingjarnt starf af ykkar hálfu á öllum sviðum.
Kærar kveðjur,
Starfsfólk myndgreiningardeildar Hjartaverndar.


Til Eddu Aradóttur ritstjóra
Á ársafmæli “Arnartíðinda”
Mér þykir augljóst, að nokkur orð viðurkenningar og heillaóska til heimasíðu Rafarnarins og stórmerkilegri útgáfu hennar, sem þú kallar einu nafni “Arnartíðindi” beri einkum að stíla til þín, ágæta Edda, sem hefur nú í eitt ár haldið uppi þessu mjög merka og að mínu viti bráðnauðsynlega verkefni að safna, standa að og koma á framfæri upplýsingum, fréttum og fróðleik sem varðar læknisfræðilega myndgreiningu.
Það var að sönnu “mikið gæfuspor” (eins og sagt er í minningar- og afmælisgreinum!) að Smári Kristinsson skyldi ráðast til okkar í röntgentæknigeirann fyrir margt löngu síðan, en störf hans á því sviði verða seint metin, og meðal þeirra má í þessu sambandi sérlega geta um stofnun og starfrækslu fyrirtækisins, sem nú hýsir á heimasíðu sinni þessa ágætu fræðslustarfsemi.
Eins og greinilega kemur fram í góðu yfirliti þínu á netsíðunni, varðandi “afmælið” þá hefur tekist að byggja upp talsvert öfluga og einkar fjölbreytta “netsíðu” um sem flesta þætti er snúa að geislafræði.
Meira…
Frá Ásmundi Brekkan, prófessor.


Afmæli Arnartíðinda.

Arnartíðindi, eins og við þekkjum þau í dag,  eru eins árs um þessar mundir. Að halda úti vefsíðu er mjög mikil vinna og eins og allir hafa rekið sig á þá eru allt of oft gamlar
úreltar upplýsingar á heimasíðum, en svo er ekki á síðum Rafarnarins. Heimasíðan þeirra er stöðugt uppfærð og er tilhlökkunarefni fyrir okkur röntgenfólkið að kíkja á hana á mánudagsmorgnum og sjá hvað þeim hefur nú dottið í hug. Fréttir af því hvað aðrir eru að bjástra með eða breyta hjá sér eru skemmtilegar. Upplýsingar um ráðstefnur og frásagnir þeirra sem þær sækja er alltaf gaman að lesa. Einnig hafa birst á vefsíðu Rafarnarins alls konar greinar og hugleiðingar, ásamt hvatningum til að gera betur í okkar fagi sem er í stöðugum breytingum.
Heimur röntgenfólks á Íslandi er ekki stór, stundum finnst manni hann vera eins og saumaklúbbur af stærri gerðinni, allir þekkja alla. Arnartíðindi tengja okkur saman og eru vettvangur, þar sem menn geta látið skoðun sína í ljós, og fræðst um alls konar hluti tengda og ótengda okkar daglegu vinnu.
Um leið og ég óska öllum Raförnum til hamingju með afmæli Arnartíðinda, vil ég nota tækifærið til að þakka Raferninum fyrir ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina. Auk þess að halda tækjunum gangandi hafa starfsmenn Rafarnarins alltaf verið boðnir og búnir til skrafs og ráðagerða í alls konar verkefnum, hversu smá sem þau hafa verið.
Við í Orkuhúsinu munum halda áfram að hlakka til mánudagsmorgnanna.
Bestu kveðjur í tilefni dagsins. 
Einfríður Árnadóttir, röntgenlæknir. 

 

Aðeins eitt ár?
Mér er sagt að raforninn.is í núverandi mynd hafi verið til í eitt ár. Það kemur mér á óvart því í mínum huga er þessi vefsíða orðin gömul og rótgróin. Ég tel að raforninn.is hafi nú þegar náð að skapa sér fastan sess meðal myndgreiningarfólks. Þar (hér) hafa birst mjög áhugaverðar greinar um menn og málefni og á síðunni er mikið af fróðlegu efni sem gott er að hafa aðgang að frá einum stað. Félagslegt gildi síðunnar er líka mikið, því viðtöl við geislafræðinga og fleiri, ferðasögur og kynningar á myndgreiningardeildum veita okkur innsýn í störf hvers annars.
Þarna varð til vettvangur til að koma málefnum geislafræðinga á framfæri, raforninn.is er aðgengileg og áhugaverð síða sem margir fylgjast með. Starfi FG hafa verið gerð góð skil og ég er að sjálfsögðu mjög ánægð með það. Það er minnt á alla fundi okkar og þarna er líka alltaf hægt að finna upplýsingar um ráðstefnur sem eru á döfinni svo eitthvað sér nefnt.
Á raforninn.is birtast fréttir úr röntgenheiminum og fróðlegar greinar sem ekki eru birtar annarsstaðar og mér finnst Edda Aradóttir, ritstjóri, hafa staðið sig með miklum sóma. Það er greinilegt að mikill áhugi hennar og eljusemi hefur smitað út frá sér og skilað fjölda áhugaverðara greina sem ég efa að hefðu orðið til ella.
Ég vona svo sannarlega að raforninn.is haldi áfram á sömu braut – til hamingju með afmælið!
Jónína Guðjónsdóttir, formaður Félags geislafræðinga.



        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *