Afmæliskveðja – Brekkan

 
Til Eddu Aradóttur ritstjóra
Á ársafmæli “Arnartíðinda”
Mér þykir augljóst, að nokkur orð viðurkenningar og heillaóska til heimasíðu Rafarnarins og stórmerkilegri útgáfu hennar, sem þú kallar einu nafni “Arnartíðindi” beri einkum að stíla til þín, ágæta Edda, sem hefur nú í eitt ár haldið uppi þessu mjög merka og að mínu viti bráðnauðsynlega verkefni að safna, standa að og koma á framfæri upplýsingum, fréttum og fróðleik sem varðar læknisfræðilega myndgreiningu.
Það var að sönnu “mikið gæfuspor” (eins og sagt er í minningar- og afmælisgreinum!) að Smári Kristinsson skyldi ráðast til okkar í röntgentæknigeirann fyrir margt löngu síðan, en störf hans á því sviði verða seint metin, og meðal þeirra má í þessu sambandi sérlega geta um stofnun og starfrækslu fyrirtækisins, sem nú hýsir á heimasíðu sinni þessa ágætu fræðslustarfsemi.
Eins og greinilega kemur fram í góðu yfirliti þínu á netsíðunni, varðandi “afmælið” þá hefur tekist að byggja upp talsvert öfluga og einkar fjölbreytta “netsíðu” um sem flesta þætti er snúa að geislafræði.

Þetta nafn, “geislafræði” er nokkuð þjált, þótt það nái hins vegar ekki að öllu allt það yfirgripsmikla svið, sem læknisfræðileg myndgreining spannar með vaxandi hraða og fjöbreytni með hverju misseri sem líður.
Emda þótt tæknibyltingin, einkanlega í stafrænni myndgerð og úrvinnslu, en jafnframt ýmiskonar skörun greiningarvinnu okkar yfir á svið lífefnafræði og jafnvel örveirufræði sé í nánast óstöðvandi framþróun, breytir það ekki þeirri staðreynd, að jónandi geislun er enn einn höfuð drifkrafturinn í myndgerðinni, og þártt fyrir sívaxandi og umfangsmeiri vinnslumöguleika annarra orkugjafa, einkanlega segulómunar en einnig ómtækninnar, mun svo enn verða um langa framtíð. Það er því áfram þörf á þróun og nýtingamöguleika röntgentækjabúnaðar, og þá jafnframt að grundvallar fagþekking þeirra starfsmanna, sem við læknisfræðilega myndgreiningu starfa, á eigindum, eðli og áhættum jónandi geislunar sé virkur og lifandi þáttur í námi, starfi og símenntun. Þetta á jafnt við hér sem í öðru hátækniþróuðu umhverfi, og meðal þeirra níutíu prósenta heimsbyggðarinnar, sem fyrisjáanlega eiga ekki völ á yfirþróuðum tæknibúnaði, en sættist á einföldustu röntgenmyndgerðartæki. Því skal heldur ekki gleyma, að þrátt fyrir “ofurtæknina”, leysist flestur myndgreiningavandi með gömlu “gufuröntgentækninni”. Í því sambandi er rétt að minna á, að á landi sem okkar, sem er tiltölulega strjálbýlt og hefur auk þess ekki bolmagn til að þróa og nýta “ofurtæknina” nema á örfáum stöðum, verður, eins og reyndar um allan heim, hin einfaldari röntgentækni ómissandi hjálpartæki um ófyrirsjáanlega framtíð.. Þetta ber að hafa í huga við uppbyggingu náms og símenntun geislafræðinga, lækna og annarra stétta, sem að þessum málum koma.
Edda, þú hefur farið myndarlega af stað og vil eg þar sérstaklega minnast á síður þínar um sögu og þróun myndgreiningartækninnar. Á þeim vettvangi þarf að halda áfram, því að meðvitundin um söguna og fortíðina er nauðsynleg; ekki síst í því síbreytilega umhverfi sem við hrærumst í og veldur bæði einstaklingum og heilum stéttum heilabrotum og óróa þegar skilgreina skal sjálfan sig, stöðu sína og tilveru starfsgreinarinnar.
26. ágúst 2003-
Ásmundur Brekkan, Professor emeritus

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *