Aðdragandi
Á þeim tímamótum þegar Röntgentæknafélag Íslands var lagt niður og Félag geislafræðinga stofnað hittumst við á fundi, ég sem þetta skrifa og Jónína Guðjónsdóttir þáverandi formaður Félags geislafræðinga, ásamt nokkrum stjórnarmönnum í sama félagi.
Tvö mál voru á dagskrá þessa fundar. Fyrra málið á dagskrá var frágangur skjalasafns Röntgentæknafélagsins. Það var áhugi á að ganga frá skjalasafni félagsins til varanlegrar varðveislu og geymslu, þar sem skjöl þess yrðu opin og aðgengileg þeim sem síðar munu hafa áhuga á að skoða þau. Annað mál á dagskrá var að kanna möguleika þess að skrá sögu Röntgentæknafélags Íslands.
Ég var sjálf í stjórn Röntgentæknafélagsins á fyrstu árum þess og þekki störf röntgentækna af eigin raun og tók að mér að ganga frá skjalasafninu til varðveislu á Þjóðskjalasafni Íslands og skrá sögu félagsins.
Vinnuferli
Þegar það var ákveðið að ég tæki að mér verkið, skráningu sögunnar og frágang skjalasafnsins settum við okkur vinnureglur. Þrír geislafræðingar eiga að lesa yfir það sem ég skrifa. Á síðari stigum kemur með í hópinn ljósmyndaritstjóri. Til að byrja með var ákveðið að skrá fyrstu 15 starfsár félagsins og mér gefnar frjálsar hendur við skrifin. Ég lýsti því yfir strax að þetta yrði aukavinna hjá mér og tæki því einhver ár að gera þetta. Ég tók við skjalasafni félagsins sem fyllti nokkra svarta plastpoka og eru pappírarnir í minni vörslu ásamt elstu fundagerðabókum Röntgentæknafélags Íslands.
Þegar ég hóf verkið fannst mér að aðdragandi þess að stéttin varð til yrði að vera með í sögunni og byrjaði ég á að skrifa þá kafla í eigin frítíma (og á eigin kostnað). Auk þess tók ég saman stutt yfirlit yfir þróun röntgenrannsókna á Íslandi. Mér fannst ekki hægt að byrja á sögu Röntgentæknafélagsins nema kanna þessa þætti fyrst. Í skrifum mínum um þessi 15 ár í sögu félagsins reyni ég að tengja sögu félagsins við þær breytingar sem eru að verða í þjóðfélaginu á þessum árum, m.a. eru fyrstu ár félagsins mikil baráttuár kvenna fyrir jafnrétti en stofnendur félagsins voru allt konur.
Ég geri mér vonir um að ljúka skrifum á 15 ára sögu félagsins um næstu áramót.
Prentverk eða netverk
Strax í byrjun ræddum við um kostnað við útgáfu svona verks og sáum fljótlega að prentkostnaður væri það mikill að slíkt kæmi ekki til greina. Því var ákveðið að verkið yrði sett á heimasíðu félagsins og aðgengilegt öllum þar. Síðan hefur allur prentkostnaður lækkað og e.t.v. ætti að endurskoða útgáfumál en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fara að setja einstaka kafla inn á heimasíðuna nú í sumar, þannig að bókin verði til smátt og smátt á netinu.
20.02.06 Þórunn Guðmundsdóttir, röntgentæknir og sagnfræðingur MA