Aðstoðarforrit við úrlestur

Flestar þjóðir glíma við skort á myndgreiningarfólki og ýmislegt er nefnt sem möguleg lausn á þeim vanda, meðal annars að nota tæknina til að spara mannskap og minnka álag á starfsfólk.

Einn af möguleikunum eru aðstoðarforrit, ábendingar- og/eða úrlestrarforrit (CAD), sem benda röntgenlæknum á mögulega grunsamlegar breytingar. Slík forrit eiga til dæmis að geta aukið afköst, minnkað hættu á mannlegum mistökum og komið í stað röntgenlæknis nr. tvö þar sem tvífarið er yfir röntgenmyndir s.s. við brjóstamyndatökur. En eru þessi forrit að uppfylla loforð framleiðanda? Hvernig reynast þau og eru þau að þróast ásættanlega?

Nýlega birtist í Journal of the National Cancer Insitute grein þar sem lýst er niðurstöðum sem benda til þess að ábendingarforrit bæti engu við árangur í úrlestri, hversu fáliðaðir og þreyttir sem röntgenlæknarnir eru. Því má þó ekki gleyma að birst hefur fjöldinn allur af greinum sem halda fram hinu gagnstæða og sífellt er verið að bæta forritin. Í fyrirlestri á RSNA ráðstefnunni 2003 var sérstaklega bent á hversu vel gengi að þróa þau til notkunar á tölvusneiðmyndir af lungum. Þar hafa framfarir verið mjög örar síðastliðin tvö ár, sérstaklega hvað varðar leit að blóðtöppum (embólíuleit). Á AuntMinnie hefur mikið verið fjallað um notkun CAD á CT myndir, t.d. 1. mars síðastliðinn og einnig þann fimmta sama mánuðar.
(Þeim sem ekki eru vanir að leita upplýsinga hjá Minnu frænku skal bent á að þeir verða beðnir um aðgangsorð þegar þeir smella á þessa tvo tengla. Einfalt er skrá sig sem notanda hjá AuntMinnie og það kostar ekki neitt.)

Á RSNA 2003 var nokkuð fjallað um aðstoðarforrit almennt og sýndist sitt hverjum, eins og yfirleitt er. Undirtónninn virtist þó sá að CAD stæði varla undir væntingum en hvort væntingarnar eru raunhæfar er svo önnur spurning. Það er ljóst að framleiðindur eru að nota mikla fjármuni í þróun þessara forrita en eftir því sem fram kom á fyrirlestrum er árangurinn enn varla ásættanlegur. Þar var sagt að ábendingarforritin (computer aided detection) væru enn að benda á meira en tvær saklausar breytingar fyrir hverja eina sjúklega og endalaust er hægt að leika sér með tölur fyrir næmni (sensitivity) og rétta greiningu (specitivity). Til gamans má nefna að ímyndað forrit sem ætti að leita að grunsamlegum hnútum á lungnamynd og setti einfaldlega stóran hring yfir öll lungun gæti talist hafa 100% næmni!

Mjög áhugaverð tækni sem einnig getur hjálpað til við úrlestur tilheyrir “Dual Energy” lungnamyndakerfi þar sem auk venjulegrar lungnamyndar fæst mjúkpartamynd og beinamynd. Á beinamyndinni sjást einnig kalkanir en það sem ef til vill er áhugaverðast er möguleikinn á frádráttartækni (subtraction) sem t.d. má nota þannig að eldri lungnamynd er “dregin frá” þeirri nýju og eftir stendur einungis það sem breyst hefur milli rannsókna.

Þrátt fyrir allt virðist vera langt í að tölvuforrit leysi röntgensérfræðingana okkar af hólmi og í þeirra stað komi almynd (hologram) eins og læknirinn í sjónvarpsþáttunum Star Trek. Það eru góð tíðindi og koma víst engum á óvart, svona í alvöru talað, en breyta engu um það að tæknin þróast áfram og ekkert okkar veit hvað bíður handan við hornið.

19.04.04 Edda Aradóttir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *