Að skrifa góða grein

Það er ótrúlega erfitt að fá myndgreiningarfólk til að skrifa eitthvað og birta hér á raforninn.is. Flestir virðast hræddir við að láta sjá eftir sig nokkuð minna en hávísindalegar fræðigreinar og ekki er hægt að búast við að mikið framboð sé á þessháttar efni, viku eftir viku. Þó er til fólk sem hefur kjark og gefur sér tíma til að skrifa nokkrar málsgreinar frá eigin brjósti og deila með kollegunum.

Gott dæmi slíkt efni er grein sem Anna Dóra Pálsdóttir, geislafræðingur, skrifaði um barnaröntgen fyrir nokkrum árum. Ákaflega einlæg grein sem ber vott um sannan áhuga höfundarins á starfi sínu og inniheldur fróðleik og ráð sem nýtast vel í dagsins önn.

Þessi grein gefur góða hugmynd um hvernig „venjulegt“ myndgreiningarfólk getur skrifað áhugavert efni. Greinaskrif þurfa ekki að vera neitt skelfilega flókið eða tímafrekt verkefni og það er ákaflega gefandi að deila vangaveltum sínum með öðru fólki í sama fagi.

Ég skora á ykkur öll að setjast nú við tölvuna og byrja að skrifa um það sem ykkur finnst skemmtilegast í faginu. Eftir ótrúlega skamman tíma verður það orðið að góðri grein sem gaman er að leyfa öðrum að lesa. Þá sendið þið ritverkið á edda@raforninn.is.

31.01.11 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *