Að halla sér aftur og hafa það gott


„Þú lætur aldeilis fara vel um þig“, er setning sem fólk fær oft að heyra ef það hallar sér aftur í sæti sínu. Í vinnunni má oftast túlka þetta sem: „Þú ert ekki að gera neitt, letinginn þinn“.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk ályktar að sá sem slakar á líkamanum, t.d. við að vinna við tölvu, skili minni afköstum eða lélegri vinnu en sá sem heldur líkamanum spenntum. Hugurinn hlýtur að njóta sín betur ef líkamanum líður vel.

Að gleypa bendiprikið
„Sittu fallega eins og bróðir þinn“, sagði kennari við nemanda fyrir mörgum árum. „Huh, hann situr eins og hann hafi gleypt bendiprikið“, svaraði stráksi. 
Á RSNA 2006, um það bil 40 árum eftir að þessi orðaskipti áttu sér stað, komu fram rannsóknaniðurstöður sem benda til þess að það sé alls ekki hollt fyrir bakið að sitja eins og maður hafi gleypt bendiprikið. Dr. Waseem Amir Bashir, röntgenlæknir við háskólasjúkrahúsið í Aberdeen, notaði, ásamt félögum sínum, nýja tegund segulómtækis (Positional MRI) til að mynda 22 sjálfboðaliða sitjandi í mismunandi stellingum. Í ljós kom að álag á hrygginn var minnst þegar fólkið hallaði sér aftur í 135°, þ.e. 45° frá því að sitja þráðbeint. Fæturnir eiga eftir sem áður að vera á gólfinu, eða lágum skemli, eftir leggjalengd fólks.

Ágætis grein um rannsókn og niðurstöður dr. Bashir var birt á vef um vinnuvistfræði, Ergonomics Today, fyrir nokkru.

Í Portland Press Herald birtist einnig mjög skemmtileg grein og hægt er að lesa hana á mainetoday.com. Þar er haft eftir dr. Bashir að auðvitað sé ekki hægt að sitja við vinnuna alla daga eins og maður hafi hallað sér í La-Z-Boy stól. Það mikilvæga er að finna stöðu sem líkaminn getur slakað á í.

Hér eru nokkrar ráðleggingar um hvernig fólk í skrifstofuvinnu getur helst verndað bakið: 

Stattu oft upp, það er mikilvægt að vera ekki í sömu stellingu tímunum saman.
Í staðinn fyrir að senda tölvupóst á vinnufélaga í næsta herbergi skaltu fara þangað og tala við hann.
Drekktu mikinn vökva, þá þarftu oft á snyrtinguna.
Ekki hafa allt innan seilingar. Prentari, bókahillur, ljósritunarvél o.þh. ættu að vera staðsett í nokkurra skrefa fjarlægð.

Ekki hanga framávið (sitja í rækjustellingu).
Það er enn verra en að sitja þráðbeinn

Sittu aftarlega í stólnum.
Enginn stól geti stutt við bakið nema rassinn á þeim sem í stólnum situr sé aftast á setunni.

Að halla sér lítið aftur er betra en ekki neitt.
Þó einungis sé hægt að halla sér aftur um 10 – 15 gráður er það stórum betra en að sitja þráðbeinn.

Notaðu tækifærin til að halla þér aftur
Ef t.d. er haldinn símafundur eða þú þarft að ræða málin við vinnufélaga er upplagt að halla stólbakinu í 135 gráðurnar.

Nýttu stillingamöguleika stólsins.
Gott getur verið að halla bakinu lítið eitt aftur og velta setunni þannig að hnén séu ögn lægra en mjaðmirnar.
 
Notaðu púða
Ekki bjóða allir skrifstofustólar upp á nægilega góðar stillingar en því má mögulega bjarga með því að sitja á fleyglaga púða eða hafa stuðningspúða við bakið.

Til gamans er hér bent á nýstárlega hannaða „vinnustöð“ sem sagt var frá í nýjasta tölublaði Lifandi vísinda.
 
Af myndgreiningarfólki eru það ritarar og röntgenlæknar sem sitja mest við vinnu sína, en með sífellt meiri stafrænni væðingu eykst tölvuvinna hjá öllum starfshópum. Í mörgum tæknivæddum ríkjum eru bakverkir orsök um 80% fjarvista frá vinnu, að því ógleymdu hversu mjög eilífir verkir og þreyta rýra lífsgæði fólks. 

07.02.07 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *