16.09.02

Viku símenntunar, sem Menntamálaráðuneytið stendur fyrir, lauk á föstudaginn var. Þetta er þriðja árið sem slík vika er haldin til að minna á mikilvægi þess að halda við sinni menntun, auka við hana og víkka út.


Fyrir þá sem í myndgreiningargeiranum starfa eru ótal áhugaverðar leiðir til slíks. Hægt er að halda sig beint við sitt fag og sækja þá námskeið eða framhaldsnám, hér heima eða erlendis, eftir starfsgreinum. Lang flestir, ef ekki allir, eiga möguleika á námsleyfi frá vinnu og styrkjum frá fag- og/eða stéttarfélögum.



Einnig getur hver fylgt sínu áhuga- eða starfssviði, t.d. sérhæft sig í stjórnun, kennslu eða hverju því sem hugurinn stendur til.



Ekki er síður hollt og gott að skipta tímabundið um vinnustað, t.d. með því að komast í afleysingastöðu nokkrar vikur. Flestir fá mest út úr því að fara utan en þó aðeins sé skipt á milli myndgreiningarstöðva hér heima er alltaf eitthvað sérstakt á hverjum stað sem gefur annað sjónarhorn á starfið.



Ráðstefnur ýmiskonar bjóða upp á feikilegt magn upplýsinga og glæða áhuga fólks á því sem nýjast er í starfsgrein hvers og eins.



Fjarnám er komið inn sem áhugaverður þáttur og gefur jafnvel möguleika á að stunda nám við skóla erlendis án þess að taka sig upp með allt sitt og flytja af landi brott.



Aðalatriðið er að halda huganum opnum og athyglinni vakandi. Allir eiga á hættu að staðna og hjakka í sama farinu ár eftir ár ef þeir ekki gæta að sér. Í myndgreiningargeiranum eru framfarir mjög örar og spennandi möguleikar á símenntun, framhaldsmenntun og útvíkkun í starfi að sama skapi óteljandi.



Hjá flestum er vinnutíminn u.þ.b. 25% af árinu og reyndar miklu meira hjá sumum. Það hlýtur því að felast heilmikil lífsfylling í að vera ánægður með hvernig maður leysir störf sín af hendi. Símenntun og annað slíkt viðheldur áhuga og metnaði í starfi og gefur þannig möguleika á meiri ánægju.



Eins og áður er sagt er mikilvægt að hver finni leið við sitt hæfi. Ekki hafa allir aðstæður til að fara til útlanda eða taka sér leyfi frá störfum og stunda framhaldsnám. Það þýðir ekki að þeir eigi að láta allt sem heitir símenntun lönd og leið. Áhugaverða fyrirlestra eða stutt námskeið er víðast hvar hægt að sækja og þegar af stað er komið eflir það oft löngun til að læra meira og kjark til að halda áfram.



Hér innanlands má benda á nokkrar leiðir fyrir fólk sem leitar símenntunar.


 


Háskóli Íslands – endurmenntunarstofnun


 


Tækniháskóli Íslands – geislafræði


 


Mennt er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins, skóla á framhalds- og háskólastigi og sveitarfélaga. Meginhlutverk Menntar er að annast söfnun og miðlun upplýsinga og stuðla að gagnkvæmri yfirfærslu þekkingar og færni. Mennt sér um framkvæmd á verkefnum er tengjast menntun og fræðslu og er virkur vettvangur samræðna og samstarfs aðila vinnumarkaðarins, skóla og stefnumótunaraðila til þróunar menntunar fyrir atvinnulífið.


Þar er fjöldi félagsaðila, m.a. Tækniháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinnn á Akureyri, Landspítali – Háskólasjúkrahús, Tæknifræðingafélag Íslands, Rafiðnaðarsambandið og símenntunarstöðvar um allt land.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *