14.10.02

Farsímar.


Flestir telja mikilvægt að vera í góðu sambandi. Sá sem ætlar að veita góða þjónustu þarf númer eitt, tvö og þrjú að sjá til þess að auðvelt sé að ná í hann. Í nútíma þjóðfélagi treystir fólk mikið á farsíma, einkum GSM, og margt forvitnilegt er hægt að finna varðandi þá. 



Talsími á Íslandi 


Talsíminn er mikið tækniundur. Nafnið Alexander Graham Bell ber hæst þegar horft er aftur í tímann en það var í von um að rjúfa einangrun nemenda sinna sem þessi skoski fyrrverandi kennari heyrnarlausra hóf tilraunir með að flytja hljóð eftir rafstreng. Árið 1876 tókst honum að framleiða fyrsta nothæfa símann.


Hingað til Íslands náði þessi tækni árið 1906 þegar sæstrengur var tengdur á Seyðisfirði. Á næstu árum og áratugum breiddist tæknin út og sími kom í hverja sveit og þorp. Margir, sérstaklega sveitamenn eins og undirrituð, muna eftir opna símkerfinu þar sem hver maður gat hlustað á samtöl annarra.


Síðan kom sjálfvirki síminn, hægt var að hringja jafnt á nóttu sem degi og ræða málin án þess að nágranninn heyrði til. Það var þó ekki fyrr en 1989 sem slíkur munaður var kominn í allar byggðir landsins. Um það bil einu ári áður en byrjað var að byggja upp GSM kerfi hérlendis.



GSM líkist útvarpi

Reyndar er GSM allt annars eðlis en „venjulegur“ sími. Hann er miklu nær því að vera útvarp. Á vefsetrinu Howstuffworks má finna næstum allt um hvernig GSM símar virka.

Hætta af símanotkun?


En eru þeir hættulegir? Mikið hefur verið skrifað um hugsanlega áhættu. Sumir notendur GSM síma hafa kvartað undan allskyns vanlíðan og jafnvel hefur verið fullyrt að notkun þeirra geti valdið heilaæxli. Hægt er að finna rannsóknaniðurstöður sem sýna að notkun farsíma sé fullkomlega hættulaus og aðrar sem sýna hið gagnstæða. Ýmislegt athyglisvert um rafmengun má finna á vefsíðu Iðnskólakennarans Valdemars Gísla Valdemarssonar. 


Ef fólk vill hafa vaðið fyrir neðan sig er best að nota handfrjálsan búnað. Að vísu er hægt að kaupa farsímaverjur fyrir þá sem vilja setja öryggið á oddinn en þær hafa víst sína galla. Sennilega gefst best að venja sig á notkun handfrjálsa búnaðarins, ekki síst vegna laga um notkun hans í akstri sem tóku gildi í nóvember á síðasta ári. Hægt er að kaupa handfrjálsan búnað á ótal stöðum, eins og allt annað mögulegt og ómögulegt tengt farsímum.

Þjónusta við notendur
Upplýsingar um helstu tegundir sem eru í notkun hér á landi má finna á síðum framleiðenda: Motorola,  Nokia,  Panasonic,  Philips,  Samsung,  Siemens og SonyEricsson.


Þjónustuaðilar á Íslandi hafa sínar síður. Til dæmis hefur Síminn upp á ýmislegt að bjóða og einnig Og Vodafone. Eitt af því áhugaverða eru samningar við símafyrirtæki erlendis (reikisamningar) sem geta lækkað kostnað við farsímanotkun þar. Helsti gallinn er að fyrirtæki sameinast og skipta um nöfn hraðar en margir eru færir um að fylgjast með! 


Bæði á þessum íslensku síðum og á síðum farsímaframleiðenda eru einnig heilmiklar upplýsingar um NMT síma, GPRS (General Packet Radio Service) sem er sítenging við Netið, WAP (Wireless Application Protocol) Netnotkunarmöguleika og þriðju kynslóðar farsíma (UMTS eða 3G).



Markaðs- og gæðakönnun – gömul en góð
Neytendasamtökin gerðu markaðs- og gæðakönnun á GSM símum í maí 2001. Könnunina sjálfa geta einungis félagsmenn í Neytendasamtökunum nálgast á Netinu en útdrátt úr niðurstöðunum má finna á bestukaup.is. Þar er margt nytsamlegt þó þetta langt sé liðið frá því að könnunin var gerð.

Tillitssemi í notkun


Að lokum getur undirrituð ekki stillt sig um að minna fólk á að nota afar einfaldan möguleika sem allir GSM símar búa yfir. Það er hægt að slökkva á hringingunni þegar við á. Þegar aftur er viðeigandi að sinna símanum sést hvort einhver hefur hringt og má þá hafa samband við hann. Talhólf eru líka snilld!



Uppfært 02.07.03 


Edda Aradóttir, ritstjóri.


 
29.10.02.
Í framhaldi af lestri farsímagreinarinnar benti Guðlaugur Einarsson, hjá Geislavörnum ríkisins, greinarhöfundi á meiri upplýsingar varðandi mögulega skaðleg áhrif farsíma. Á vefsíðu Geislavarna ríkisins er margt áhugavert hægt að lesa og niðurstöður vinnuhóps sem gerði viðamikla rannsókn á farsímum (Independent Expert Group on Mobile Phones) benda til þess að óhófleg farsímanotkun unglinga og barna geti verið þeim skaðleg. Einnig má benda á vefsíðu alþjóðasamtaka um varnir gegn ójónandi geislun (ICNIRP).
Undirrituð þakkar Guðlaugi fyrir.
EGA


     

            

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *