07.10.02



#img 1 #
Frá því að röntgengeislun og önnur geislun uppgötvaðist hefur mönnum staðið ótti af þessum ósýnilegu geislum sem geta drepið. Ákaflega frjálsleg notkun röntgengeisla og geislavirkra efna í upphafi  20. aldarinnar leiddi til sjúkdóma og dauða.  Við þetta hafa síðan bæst kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á tvær borgir i Japan í seinni heimsstyrjöldinni og ollu meiri mannskaða á styttri tima en dæmi voru um áður.

Góð og slæm áhrif geislunar
Í dag er ljóst að geislun hefur bæði góð og slæm áhrif á lífverur. Geislun er mikið notuð til greiningar og lækninga á sjúkdómum. Með aukinni þekkingu, sífellt meiri greiningarmætti og vaxandi notkun tækja sem nota geislun er umræða um áhættu af geisluninni eðlileg.
Miklum fjármunum er varið til geislavarna um heim allan og mikið eftirlit er víðast hvar með starfsemi sem notar jónandi geislun. Mat á áhættunni er erfitt því krabbamein sem verða til vegna geislunar eru yfirleitt eins og önnur krabbamein.  Þetta er því leit að sandkornum á sjávarströnd.

Erum í eðli okkar geislavirk
Geislun er náttúrulegt fyrirbrigði. Í meðaljóninum verða um 9000 kjarnaklofnanir á sekúntu eða hátt í milljarður kjarnaklofnanna á sólarhring. Það er því í eðli okkar að vera geislavirk.
Síðan um 1980 hafa birst margar trúverðugar greinar um jákvæð áhrif geislunar á manninn og aðrar lífverur. Mikið ívitnuð grein er  Luckey, T.D. (1982) Physiological benefits from levels of ionizing radiation. Health Phys. 43:771-789. Höfundurinn hefur síðan skrifað margar athyglisverðar greinar um þetta efni.

Lágir geislaskammtar hollir?
Faraldsfræðilegar rannsóknir á áhrifum af mishárri náttúrulegri bakgrunnsgeislun (hún gefur skammta  á bilinu 1 til 130 mSv á ári) hafa ekki getað staðfest svæðisbundna aukna tíðni krabbameins. Menn hafa jafnvel séð hið gagnstæða því sumar rannsóknir sýna að við aukna geislun upp að vissu marki fækkar krabbameinstilfellum. Rannsóknir á þeim sem lifðu kjarnorkusprengjurnar í Nagasaki og Hiroshima af sýna að þeir sem áætlað er að hafi fengið geislaskammta undir 200mSv lifa að jafnaði lengur en samanburðarhópur í Japan sem enga geislun fékk. Stór bandarísk rannsókn (Matanoski, 1991) sýndi að þeir sem fengu mesta geislun við vinnu sína fengu 24% síður krabbamein og staðalfrávikið á þessum niðurstöðum var 16%. 

Gera þarf skýran greinarmun á háum og lágum geislaskömmtum
Það eina örugga er að mjög háir geislaskammtar eru skaðlegir og að sum líffæri eru mikið viðkvæmari en önnur. Núverandi viðmiðanir um áhættumat vegna geislunar miðast við LNT (Linear no threshold) líkanið sem var samþykkt m.a. til að einfalda geislavarnir.  Við útreikninga á geislaáhættu er einnig tekið tillit til þess hversu viðkvæm líffæri eru fyrir geislun og til aldurs viðkomandi einstaklings. Einn gallinn á þessu líkani er að samkvæmt því er öll geislun hættuleg og menn beita ALARA (As Low As Reasonably Achievable) aðferðinni og kosta þá gjarna miklu til að minnka litla geislaskammta. Annað óheppilegt sem leiðir af LNT líkaninu er að lítill skammtur til margra einstaklinga getur orðið að stórum áhættuþætti.

Geislaskammtar í TS
Nokkuð er nú fjallað um geislaskammta í TS tækjum og ýmsir telja þá hættulega. Ástæðan er m.a. sú að meira en helmingur af þeirri geislun sem fólk fær við læknisfræðilega myndgreiningu er frá TS tækjum. Umfangsmikil TS rannsókn er af stærðargráðunni 10mSv. Það samsvarar um 2 – 3 ára náttúrulegri geislun víða í heiminum en um mánaðar skammti þar sem náttúruleg geislun er mest.
Við sem vinnum í greininni þurfum að viðhalda okkar þekkingu á þessu sviði sem öðrum.  Mjög mikilvægt er að geta gefið viðskiptavinum upp áætlaða áhættu í einhverju sem þeir þekkja eða miða við meðalbakgrunnsgeislun á jörðinni sem eru um 3 – 4 mSv á ári.  Reykingamenn geta síðan bætt við um 3 mSv.

Munum að hvaða líkan sem við notum, þá eru það skammtarnir en ekki geislarnir sem geta verið hættulegir.


Áhugaverð yfirlitsgrein um áhrif lágra geislaskammta
Síða áhugafólks um Geislun vísindi og heilsu
Samantekt á heimasíðu Geislavarna ríkisins
Samantekt á heimasíðu Norsku geislavarnanna

Smári Kristinsson, 07.10.02.

(Yfirfarið 03.09.03, Edda Aradóttir)       
 
             

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *