Þáttur röntgenlækna í stjórnsýslu – Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir


Í Læknablaðinu, 03. tbl 92. árg 2006, birtist  viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, þar sem fjallað er um ýmsa þætti tengda doktorsritgerð hennar um aðdraganda að ákvörðun ríkisins um kaup á Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1998 og síðar sameiningu sjúkrahúsanna tveggja í Reykjavík árið 2000.
Þarna er ótal margt umhugsunarvert að finna og fyrir myndgreiningarfólk er sérlega jákvætt að sjá viðhorf nýbakaðs doktors í stjórnsýslufræðum til röntgenlækna: 


“ …Sigurbjörg var spurð um það eftir fyrirlesturinn í Öskju hvernig hún mæti undirbúninginn að byggingu hátæknisjúkrahúss í ljósi reynslunnar af sam­einingu sjúkrahúsanna. Hún sagðist hafa les­ið skýrslu nefndar sem átti að búa kerfið undir ákvarðanatöku (kennd við Ingibjörgu Pálmadóttur formann) en sá ekki betur en að ákvörðunin um að byggja einn spítala hefði verið tekin áður en skýrslan var skrifuð, hún líktist frekar forsögn fyrir arkitekta. Hún sagði það líka hafa vakið athygli sína að ekkert skuli vera fjallað um tengsl þessa sjúkrahúss við afganginn af heilbrigðiskerfinu.

Já, reyndar vakti það ekki síður athygli mína þegar ég sá hverjir sátu í nefndinni sem samdi skýrsluna og að þar var engan lækni að finna. Þar hefði ég viljað sjá röntgenlækni en þeir gegna að mínu viti lykilhlutverki í nútíma bráðasjúkrahúsum. Þeir hafa púlsinn á tækninni og vita hvað er handan við hornið í þeim efnum, ekki bara að því er varðar rannsóknartæknina sjálfa heldur einnig hvaða möguleikar eru að verða til í samskiptatækninni sem gerir þeim kleift að að halda uppi beinum samskiptum við aðra sérfræðinga innan sjúkrahúss sem utan, jafnvel í öðrum landshlutum, sem bíða eftir niðurstöðum myndgreininga.“

Þetta er rétta viðhorfið!
Unnið 13.03.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *