Chicago heilsaði okkur með ótrúlega góðu veðri og fór ég aldrei í úlpuna, menn sáust jafnvel á útiterium að drekka kaffi. Ég gaf mér tíma á laugardeginum að fara í Chicago Art Institute sem alltaf er jafngaman og loksins komst ég í Millenium park þar sem menn spókuðu sig í góða veðrinu og tóku myndir af hinum sérkennilega spegilstruktur sem þarna er. Svo var náttúrulega aðeins kíkt í búðir. Eitt nýtt veitingahús bættist í safnið en það er Chicago Firehouse restaurant sem er í gamalli slökkvistöð, ágætis matur og fín stemning.
Sjúklingamiðuð myndgreining
Það var margt um manninn á Mc Cormick og eyddi ég miklum tíma þennan sunnudag á sýningunni sem var mjög viðamikil eins og alltaf.
Fór þó á einn fyrirlestur sem bar yfirskriftina “Patient Centered Radiology – use it or lose it.” Þarna var verið að viðra málefnið röntgendeildin vs sjúklingurinn. Vitnað var í rannsóknir sem gerðar hafa verið og bent á hvernig hægt væri að setja mælikvarða á upplifun sjúklingsins og var í því sambandi bent á síðu CAHPS sem er Consumer assessment of healthcare providers and system.
Fljót og góð þjónusta
Símsvörun var það fyrsta sem komið var inn á, sá sem svarar í símann eigi að geta gefið helstu upplýsingar og tekið niður tímapöntun þannig að sjúklingar eyddu ekki löngum tíma í að bíða í símanum. Mælt var með möguleikanum að panta tíma á netinu. Það þyrfti að vera búið að svara símanum innan 15 sekúndna annars legði sjúklingurinn á og pantaði tíma þar sem aðgengi væri betra. Móttökuritari gegnir miklu hlutverki í að bjóða fólk velkomið og gefa nauðsynlegar upplýsingar og langar raðir við móttökuborðið ættu ekki að sjást. Bið eftir rannsókn eftir að fólk er komið á staðinn má ekki vera of löng því að jafnvel þeir sem koma of snemma þ.e. áður en þeir eiga tímann, upplifa það sem bið. Þeir vildu endurnefna „waiting room“ í „patient lounge“ og taka þannig út orðið bið og gera biðstofuna að betri stað í huga fólks. Þar ætti að vera góð aðstaða, nóg af góðu vatni að drekka og áhugaverð blöð að lesa. Bið er númer eitt af kvörtunum sjúklinga í rannsókn sem vitnað var í.
Meiri samskipti sjúklings og röntgenlæknis
Kvörtun númer sjö í röðinni voru dónalegir röntgenlæknar sem kynntu sig ekki og sögðu ekki hvað til stæði áður en þeir ráku nálina í sjúklinginn. Sjúklingar ættu að hafa meiri samskipti við starfsfólk myndgreiningardeilda og þeir vildu það. “ Put the patient back into the picture “ væri mikilvægt og um leið gera myndgreiningardeildina og starfsfólkið þar mikilvægt í augum sjúklingsins Röntgenlæknirinn væri sá sem læsi úr rannsókninni en ekki tilvísandi læknirinn. Það væri útbreiddur misskilningur, og við röntgenlæknar ættum koma úr felum og taka meiri ábyrgð og ættum að eyða nokkrum mínútum í að útskýra niðurstöðu rannsóknarinnar fyrir sjúklingnum og í mörgum tilfellum gæti sjúklingur farið með svarið með sér. Menn álitu þarna að sjúklingarnir vildu helst fá svarið frá röntgenlækninum. Ekki ætti að lesa úr rannsókninni hinum megin á hnettinum. Við röntgenlæknar ættum að bæta okkar ímynd og sagði hann í því sambandi “if you are what you do, and you don´t, then you aren´t.“
Góð tengsl sjúklings og geislafræðings
Geislafræðingar ættu að segja sjúklingnum hvenær svarið kæmi til tilvísandi læknis. Þeir ættu að mynda góð tengsl við sjúklinginn og sjúklingurinn á að vera miðpunkturinn á meðan þeirra samskipti vara en ekki vera aukaatriði meðan starfsfólk er að ræða sín á milli. Einnig hefði andrúmsloft á vinnustaðnum áhrif á upplifun sjúklingsins þannig að nauðsynlegt væri að starfsfólk væri ánægt á staðnum og hvert með annað.
Komið var inn á ýmislegt annað og var þetta hinn skemmtilegasti fyrirlestur og þarfur því ef við auglýsum okkur ekki gerir það enginn.
28.11.06 Einfríður Árnadóttir