Rit um þróun geislavarna frá upphafi til 1980


Um ritið “Upphaf og þróun geislavarna á Íslandi”.

Það er almennt viðurkennt, að tilveran væri ósköp rýr og flatneskjuleg, ef ekki kæmi til forvitni okkar og hnýsni um fortíðina, og hvernig hlutirnir hafa þróast til þess, sem við þekkjum, lifum og hrærumst í. Þetta á jafnt við um sögu einstaklingsins, ættarinnar, landsins, eða mannkynsins, og þá vitanlega ekki síður um það þekkingar- og vinnuumhverfi, sem við hrærumst í. Saga læknisfræðilegrar myndgreiningar allt frá Röntgen og til nútímans er aðeins rúmlega hundrað ára, en henni hafa verið gerð skil með öllum þjóðum og á öllum áratugum allt frá upphafi. Það er eðlilegt, þegar þær stórstígu og byltingarkenndu framþróanir sem orðið hafa, eru skoðaðar.

Tenging fortíðar og nútíðar
Saga myndgreiningar á Íslandi hefur líka verið skráð að litlu leyti, og í því, sem þar er komið á blað má skynja þróunina frá frumstæðum græjum áratugarins eftir aldamótin 1900 til þeirra stórfenglegu töfratækja myndgreiningar, sem við eigum í dag. Kunnáttan og þekkingin hefur vaxið og þróast að sama skapi, en stundum verður vitneskjan um ræturnar og aðdragandann svolítið útundan. Það er því, hér svo sem í öðrum löndum, nauðsynlegt að staldra aðeins við og tengja nútíð við fortíð. Eg hefi löngum haft mikinn áhuga á þeim þáttum röntgenfræðanna, sem snúa að tækjaþróun einkum með tilliti til bættra varna og meðvitundar um eðli og hugsanlegar líffræðilegar áhættur jónandi geislunar.
Það var því nokkuð eðlilegt, að eg tæki að mér að setja saman sögulegt yfirlit um þróun geislavarna á Íslandi frá upphafi, þegar forstöðumaður Geislavarna Ríkisins, Sigurður M. Magnússon, orðaði það við mig.

Heimildaleit innan lands og utan
Beint tilefni til þess að hefja verkið var, að í gögnum Geislavarna voru til nokkur gömul bréf og frásagnir, einkum Gísla Fr. Petersens, prófessors, um þessi efni, og varð sá “gagnabanki” uppistaðan að því riti, „Upphaf geislavarna á Íslandi og þróun þeirra til ársins 1980„, sem Geislavarnir hafa nú gefið út á prenti, en eg kláraði einhverntíma á árinu 2002.
Auk þeirrar frásagnar gerði eg mér far um að leita uppi eldri heimildir innanlands, og gerði auk þess all umfangsmikla leit að sögulegum upplýsingum varðandi tilurð og þróun varna gegn jónandi geislun í læknisfræði í Evrópu og Ameríku frá upphafi og fram yfir miðja tuttugustu öld. Þessu hefi eg reynt að gera skil í fyrrnefndu nýútkomnu riti Geislavarna.

Grunnur nútíma gæðaeftirlits
Ef eg væri spurður um tilgang verksins, myndi eg svara því til, sem eg nefni að framan, um þörf þess að þekkja ræturnar, svo og nauðsyn þess að minna á, að þrátt fyrir margbreytileika orkugjafa í nútíma myndgreiningu, þá er jónandi geislun ennþá þar efst á blaði, en meðvitundin um hugsanlega líffræðilega áhættu í lágmarki.
Annað, sem rifjast ætti upp fyrir lesanda, er, að í frumdrögum og “fílósófíu” geislavarna liggja þegar frá upphafi hugmyndir dagsins í dag í umhverfisvernd og gæðaþróun/eftiriti. 

Á Röntgendaginn 8. nóv.2004. Ásmundur Brekkan 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *