Réttlæting&bestun – hlutverk geislafræðinga


Nýlega var haldinn fræðslufundur hjá Félagi geislafræðinga þar sem aðal umfjöllunarefnið var hlutverk geislafræðinga í réttlætingu og bestun geislanotkunar. Spunnust nokkrar umræður og velt var upp bæði gömlum og nýjum hugmyndum um réttindi og skyldur geislafræðinga, sérstaklega hvað varðar réttlætinguna.

Læknar eða geislafræðingar
Sumir eru þeirrar skoðunar að réttlætingarhlutinn eigi fyrst og fremst að vera í höndum lækna. Bæði þeirra sem senda fólk í myndgreiningarrannsóknir og röntgenlækna, sem eigi að veita öðrum læknum ráðgjöf og standa í vegi fyrir því að gerðar séu ónauðsynlegar rannsóknir.

Það er þó sjálfsagt að geislafræðingar séu vakandi fyrir þessu ekki síður en læknarnir og jafnvel enn frekar. Geislafræðingurinn á til dæmis að geta á einfaldan hátt séð í hvaða rannsóknir viðkomandi hefur farið, hversu margar og af hvaða ástæðum. Ef til vill er til nýlegt röntgensvar sem getur varpað ljósi á það sem spurt er um. 
Einnig er það geislafræðingurinn sem hefur beiðni í höndunum, hvort sem hún er á rafrænu formi eða öðru, og getur metið hvort rannsóknin sem beðið er um getur gefið svar við þeirri spurningu sem tilvísandi læknir ber fram á beiðninni.

Nýtum menntun okkar
Geislafræðingar eiga alltaf að nýta menntun sína og reynslu til góða fyrir þá sem þurfa á því að halda, hvort sem þeir kallast sjúklingar, viðskiptavinir, skjólstæðingar eða eitthvað enn annað. Hluti af því er að gera alls ekki að nauðsynjalausu rannsókn þar sem jónandi geislun er notuð. Það getur verið erfitt og stundum er freistandi að gera einfaldlega rannsóknina og losna þannig við allskyns rökræður og ef til vill pex. Þeir sem vinna á sjúkrahúsum fá jafnvel aðdróttanir um að „röntgenliðið bara nenni ekki að gera þetta“. Það eina sem gildir eru haldgóð rök sem sýna þekkingu geislafræðingsins á málefninu og þeim eigum við að beita. Með því að bera virðingu fyrir menntun og hæfni bæði sjálfra okkar og annarra getum við átt gott samstarf um réttlætingu geislanotkunar, eins og annað.  

Fyrirlestur Guðlaugs Einarssonar
Á fyrrnefndum fræðslufundi var Guðlaugur Einarsson, frá Geislavörnum ríkisins, með  fyrirlestur, fullan af upplýsingum sem hafa gildi fyrir allt myndgreiningarfólk, ekki aðeins geislafræðinga. Glærur úr honum er að finna hér á vefsetrinu.

18.10.04 Edda Aradóttir. edda@raforinn.is
   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *