Bylting í þjónustu röntgendeildar LSH með nýju segulómtæki af fullkomnustu gerð
Landspítali – háskólasjúkrahús hefur fengið nýtt og mjög öflugt segulómtæki á röntgendeild. Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tók það formlega í notkun þriðjudaginn 14. desember 2004 á Landspítala Fossvogi.
Tækið leysir af hólmi annað, 13 ára gamalt, sem orðið er úrelt fyrir alllöngu. Það verður því mikil bylting í þessari þjónustu á spítalanum. Nýja tækið hefur þrefalt segulsvið á við gamla tækið, er 1.5 tesla en það gamla var 0.5 tesla (1.5 Tesla segull = 30000 sinnum segulsvið jarðar).
Gjörbylting hefur orðið í öllum tölvu- og tæknibúnaði og er nýja segulómtækið af fullkomnustu gerð. Greiningar verða því betri og öruggari en áður. Ný svið opnast líka til greiningar sem hafa verið lokuð til þessa.
Að loknum vinnuferli eftir útboð var valið 1.5 Tesla segulómtæki af gerðinni Magnetom Avanto sem er nýtt tæki í framleiðslu línu Siemens. Þetta tæki var fyrst kynnt í desember 2003 og kom í sölu á vordögum 2004.
Í Magnetom Avanto er ný gerð af segli, ný gerð af staðsetningar seglum (gradient system) og ný hönnun á samtengingu og notkun yfirborðsspóla svonefnt TIM (Total Imaging Matrix) kerfi sem er ítarlegri útfærsla á fyrra kerfi sem gefist hefur mjög vel hjá Siemens.
Heildarlengd seguls er 150 cm og holrýmið sem sjúklingi er rennt inn í er 90 cm langt og 60 cm vítt og í seglinum er útbúnaður sem minnkar segulmengun umhverfis hann. Sjúklingaborðið flytur 200 kg sjúkling.
Segullinn er ofurleiðandi og kældur niður í alkul með helium. 1600 lítrar af helium er í seglinum og nýtingin á helium er með því besta sem þekkist.
Tækið er útbúið með kröftugustu staðsetningar seglum ( 45mT/m ) sem völ er á. Þeir leyfa mjög hraðar myndatökur og svara fullkomlega kröfum tímans um myndatökur með segulómun og fyrirsjáanlega til næstu ára. Myndatökur með segulómun geta verið háværar og er sérstakur útbúnaður til að minnka hljóðstyrk og óþægindi vegna þess, þannig að hljóðstyrkur fer ekki upp fyrir 92 db í mest krefjandi myndatökum.
TIM kerfið byggir á samtengingu yfirborðsspóla og í þessu nýja tæki má samtengja 76 einingar í mismunandi spólum (sjúklingaspólur sem liggja undir, yfir eða umhverfis mismunandi líkamshluta sjúklinga) um 18 rásir. Þannig má mynda allan líkamann eða allt að 205 cm í lengdarstefnu án þess að þörf sé á að breyta stöðu yfirborðs spóla eða stöðu sjúklingsins og jafnframt nýta möguleika á samtengingu milli eininga í spólunum í allar áttir (parallel imaging) við myndtöku, til hins ýtrasta. Myndgæði eru eins og þau best gerast, myndatíminn er afar stuttur og myndmerkið er mjög kröftugt, Vinnuaðstaða og allir vinnuferlar við myndtöku eru mjög góðir.
Tækið er útbúið með sérstökum hugbúnaðarpökkum til stjórnunar og uppsetningar á myndatökum á taugakerfi, æðakerfi, hjarta, kviðarholi og stoðkerfi. Siemens Leonardo vinnustöð fylgir tækinu, en hún er ætluð til myndskoðunar og frekari úrvinnslu á myndum. Mjög fjölbreytt úrval hugbúnaðar til ýmiss konar hraðmyndatökum með hámarksupplausn fyrir mismunandi líffæra kerfi fylgir tækinu.
Hugbúnaðarstýrikerfið er syngo (r) frá Siemens sem getur samþætt allar upplýsingar um sjúklinginn, lýðfræðilegar, lífeðlisfræðilegar og myndfræðilegar og getur þannig tryggt gott vinnuflæði og stytt rannsóknartíma á rannsóknarstofu. Syngo tryggir að upplýsingar frá tækinu berist með staðlinum Dicom 3.0 og myndar þannig tengi fyrir myndflutning í myndgeymslur og skoðun á myndum á öðrum vinnustöðvum.
Betra aðgengi að rannsóknum og aukin greiningarhæfni mun auka notkun segulómunar á kostnað annara rannsóknar aðferða svo sem tölvusneiðmynda og æðaþræðinga. Hefðbundin segulómun hefur beinst að miðtauga- og stoðkerfi. Þar gefur tækið færi á fjölmörgum nýjungum en ekki síst meiri möguleikum á rannsóknum í öðrum líffærakerfum. Í miðtaugakerfi m.a. nefna “diffusion” rannsóknir sem gagnast ma við mat á heiladrepi. Í hjarta mat á meðfæddum göllum og bráðum og chronisku hjartavöðvadrepi. Rannsóknir á lifur og gallvegum (MRCP) í kviðarholi svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er hægt að framkvæma æðarannsóknir með miklum gæðum hvort sem er í heilaæðum eða útlimaæðum. Spekturgreining, eins konar efnagreining, gefur miklar upplýsingar um eðli þeirra breytinga sem sjást á rannsókninni og getur sem dæmi gefið vísbendingar hvort fyrirferð í heila er vegna graftarpolls eða æxlis eða hvort hnútur í blöðruhálskirtli er ill- eða góðkyna. Aukin not eru af tækinu við skoðanir á krabbameinssjúklingum og skoða má allan líkamann á stuttum tíma með sérstökum myndröðum til skimunar á meinvörpum í krabbameinssjúkum.
Með nýja segulómtækinu stígur LSH stórt skref sem hátæknispítali og háskólasjúkrahús. Væntingar innan spítalans eru miklar og sýnilegt að eftirspurn eftir þjónustu verður mikil. Í útboði fyrir þessi tækjakaup er gert ráð fyrir kaupum á öðru sambærilegu tæki sem ætlaður er staður í húsnæði deildarinnar að Hringbraut. Rík þörf er á því tæki vegna þjónustu LSH við börn, krabbameinsjúka og ýmsa fleiri sjúklingahópa og er gert ráð fyrir að tækið verði sett upp síðla árs 2005. Tækinu í Fossvogi er þó ætlað að sinna öllum sjúklinghópum. Reynt verður að nýta alla þá möguleika sem tækið býður upp á en takmarkað aðgengi og fjarlægð við sjúklingahópa svo sem hjartasjúklinga sem liggja í húsnæði sjúkrahússins við Hringbraut gæti dregið úr notkun og þróun nýrra rannsókna þar til annað tæki kemur til sjúkrahússins.
Segulómtækið nýja er af gerðinni Magnetom Avanto, framleitt af Siemens í Þýskalandi. Umboðsaðili er Smith og Norland. Heildarkostnaður við það, með fylgibúnaði, nemur um 150 milljónum króna en það er tekið á leigu til 7 ára. Tækið er í björtu og rúmgóðu húsnæði á G-2 í Fossvogi, í nýrri byggingu sem var reist bakvið slysa- og bráðadeild.
20.12.04 Pétur H. Hannesson, yfirlæknir.