Mbl. 01.12.02. Rektor THÍ.

 

Stefanía Katrín Karlsdóttir byrjaði starfsævina í fiskvinnslu en er nú rektor Tækniháskóla Íslands. Hún á fjölbreyttan náms- og starfsferil að baki og sagði Guðna Einarssyni frá hugsjónum sínum á sviði menntunar og stefnumótun í yngsta háskóla Íslands.


 


Þegar námsferill Stefaníu K. Karlsdóttur, rektors Tækniháskóla Íslands (THÍ), er skoðaður liggur beint við að álykta að hún sé fædd og uppalin í sjávarplássi – af ætt útgerðarmanna og kvótakónga. Hún lauk námi í fiskiðn og fisktækni, varð svo útgerðartæknir áður en leiðin lá í matvælafræði. Síðan bætti hún við sig uppeldis- og kennslufræðum og loks MBA-námi. En þetta er röng ályktun.


„Ég er fædd og uppalinn lengst inni í sveit, á Grund á Jökuldal,“ segir Stefanía. Bærinn er næstum eins langt frá sjó og hægt er að hugsa sér hér á landi. Foreldrar Stefaníu eru Karl S. Jakobsson, oftast kallaður Mannsi, og Kolbrún Sigurðardóttir, bændur á Grund en nú búsett í Fellabæ. En hvað kom til að sveitastúlka af Jökuldal fór í fiskvinnslunám?


„Eins og gengur og gerist í sveit er ekki launaða vinnu að hafa þar fyrir unglinga. Það var hægt að fá vinnu á Egilsstöðum, en hún var illa borguð. Ég sótti í fiskinn, þar gat maður rifið upp miklar tekjur með mikilli vinnu. Ég hætti í skóla 17 ára og vann í fiski í 3-4 ár.“


Áður en skólagangan rofnaði var Stefanía í Alþýðuskólanum á Eiðum. Hún segir að á sínum unglingsárum hafi félögum hennar ekki þótt allt of gáfulegt að fara í skóla. Þannig var kúltúrinn þá.


„Ég var mikið á Hornafirði og vann þar margar vertíðir. Það var mikla vinnu að hafa og miklar tekjur. Til dæmis þegar ég var 17 eða 18 ára gat maður gat farið að lokinni vetrarvertíð, frá janúar fram í maí, og keypt sér glænýjan bíl jafnframt því að skemmta sér um hverja einustu helgi. Þetta var áður en staðgreiðslan byrjaði, svo maður fékk allt í vasann og skattinn í hausinn árið eftir.“


Aftur í skóla


Eftir 4-5 ár í fiski ákvað Stefanía að fara í Fiskvinnsluskólann. Hún segist hafa séð að framtíðin væri í fiskinum og lauk fiskiðnarnámi 1987 og fisktækni 1988. Þaðan lá leiðin í útgerðartækni í Tækniskóla Íslands. Náminu svipar til rekstrarnámsins í Tækniháskólanum nú.


„Þetta nám snerist aðallega um hvernig á að reka útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki – með hagnaði,“ segir Stefanía og kímir. Hún lauk útgerðartækninni 1990 og eignaðist eldri dóttur sína, Rut, á sama árinu. Tveimur árum síðar fæddist yngri dóttirin, Sara.


„Ég sá að það var gott að vera í námi með því að vera með lítil börn og dreif mig því í matvælafræði í Háskóla Íslands haustið 1992,“ segir Stefanía. Þegar blaðamaður hváir segir Stefanía ákveðið: „Já, mér þótti mjög gott að vera samtímis með lítil börn og vera í skóla. Sumir vilja mennta sig fyrst og eignast svo börnin. Það hentaði mér ekki. Á þessum árum voru ekki til leikskólapláss fyrir öll börn. Stúlkurnar voru hjá dagmömmu, auk þess var ég með norska au-pair stelpu í eitt ár. Ég átti Söru í desember veturinn sem ég byrjaði í háskólanum. Ég viðurkenni að fyrstu tvö árin voru svolítið púsluspil. Það þykir kannski óðs manns æði að byrja í háskóla og vera komin langt á leið. En ég hef sjaldan farið troðnar slóðir – maður tróð þær sjálfur á Jökuldalnum.“


Að loknu B.Sc.-námi í matvælafræði fór Stefanía að vinna sem matvælafræðingur á Iðntæknistofnun. Hún starfaði þar við rannsóknir, ráðgjöf, þróunarverkefni og fleira í fimm ár. Hún fékk sífellt meiri áhuga á stjórnsýslu og skólamálum og hafði ákveðnar skoðanir á framgangi menntunar í landinu. Þessum áhuga fann hún farveg með því að lesa uppeldis- og kennslufræði í Kennaraháskóla Íslands. Því námi, sem hún tók með vinnu, lauk vorið 2000.


Menntunin er mikilvæg


„Ég tel að menntun sé gríðarlega mikilvæg. Hún er arðsöm fjárfesting og skilar sér út í atvinnulífið og þjóðfélagið með aukinni hagsæld. Ég kem úr landshluta þar sem menntunarstigið er í sjálfu sér ekki mjög hátt. Þegar ég lauk grunnskóla voru eiginlega engir, eða mjög fáir, af mínum skólafélögum og jafnöldrum sem héldu áfram námi. Krakkar á þessum aldri eru ofboðslega áhrifagjarnir og flæða með straumnum, ég tala ekki um ef peningar eru með í spilinu. Þau geta fengið vinnu í verslun hér í Reykjavík eða þess vegna fiski úti á landi. Þetta er að mínu mati einn versti óvinur unglinga í dag; að geta farið í mikla vinnu og rifið upp mikla peninga. Með því hækka þau lífsstandardinn gríðarlega og komast ekki auðveldlega úr því munstri. Síðan fara þau að eignast börn og stofna heimili. Það er ekki gott að hætta 16 ára í skóla. Fólk þarf að hugsa um menntun. Það er ekki þar með sagt að allir eigi að fara í háskólanám. Þjóðfélagið ber það engan veginn. Iðnmenntun er líka mjög hagnýt og góð og margar aðrar námsleiðir.“


Stefanía hefur mikinn áhuga á menntun fullorðinna. Margir sem horfið hafa frá námi á yngri árum vilja taka upp þráðinn á fullorðinsárum. „Það hefur orðið bylting fyrir þetta fólk undanfarin ár með öllu því fjarnámi sem í boði er. Fólk um allt land á aðgang að því. Það þarf ekki að hætta að vinna ef það er tilbúið að leggja svolítið á sig til að bæta við sig menntun. Hér í Tækniháskólanum erum við með svonefnda frumgreinadeild fyrir fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla. Það er dagskóli þar sem mikið er unnið og má segja að tekið sé ígildi stúdentsprófs á raungreinasviði á tveimur árum. Við finnum fyrir gríðarlegri þörf fyrir svona menntun.“


Stefanía segir að þegar hún ákvað að fara að mennta sig, komin um tvítugt, hafi hún orðið vör við fordóma. Fólk spurði hvort hún ætlaði að fara að „eyða“ tímanum í skóla?


„Ég fór óhefðbundna leið og þegar ég byrjaði að nýju í námi var spurt: Til hvers ertu að bæta við þig? Hvað ætlar þú svo að verða? Þetta er að breytast og fólk er orðið sér meira meðvitandi um gildi menntunar. Ég er viss um að hærra menntunarstig leiðir af sér betri árangur og lífsgæði.“


Þú segir að menntun hafi ekki verið hátt metin hjá þinni kynslóð fyrir austan. Hefur þetta viðhorf breyst?


„Já, jafnaldrar mínir fyrir austan, sem eiga börn komin á unglingsár, vilja flestir að börnin þeirra fari í skóla. Ég held að foreldrarnir séu meira farnir að ýta börnunum í skóla en áður. Eftir að ég varð 14 ára þurfti ég að sækja skóla í aðra byggð. Það var enginn skóli fyrir mig í minni sveit. Skólaganga unglinga var, og er enn, ofboðsleg byrði á mörgum fjölskyldum úti á landi. Láglaunafjölskyldur hafa hreinlega ekki efni á að senda mörg börn í framhalds- eða háskóla. Hugsaðu þér að senda börn hingað suður utan af landi, þurfa að leigja íbúð fyrir marga tugi þúsunda á mánuði og þar fram eftir götunum. Ég finn að fólk er orðið sér meira meðvitandi um gildi menntunar, en fyrir marga er þetta spurning um að kljúfa kostnaðinn.“


Samfella í skólagöngu


Stefanía telur að jákvætt viðhorf til menntunar sé sterkara í þéttbýli en dreifbýli. Aukið menntaframboð úti á landi hefur þó jafnað þann mun. „Menntaskólinn á Egilsstöðum breytti til dæmis gríðarlega miklu fyrir austan. Hann er klárlega lykilþáttur í að krakkar á þessu svæði eru að mennta sig í dag. Skólinn hóf göngu sína ári eftir að ég lauk grunnskóla. Mínir jafnaldrar og þaðan af eldri hættu flestir námi að loknum grunnskóla því þessi leið var ekki til. Ef er samfella í námsframboði þá er auðveldara að flæða með og halda áfram námi en ef það kemur eyða. Nám í heimabyggð er lykilatriði. Við getum ímyndað okkur hvernig það væri ef enginn háskóli væri hér á landi og allir sem áhuga hefðu á háskólanámi þyrftu að leita menntunar til útlanda.“


Stefanía segir að það sé einnig mikilvægt að bjóða upp á sem víðtækasta menntun úti um landið til að fólk haldist í heimahögunum að loknu námi. En það er ekki nóg að hafa menntastofnanir úti á landi. Það þarf líka að hugsa fyrir atvinnu sem krefst menntunar. Vorið 2000 segist Stefanía hafa fengið þá hugdettu að flytja aftur austur á land.


„Ég hringdi í alla sem mér datt í hug, fyrirtæki og áhrifamenn. Það kom í ljós að lítið var í boði fyrir fólk með þá menntun sem ég hafði, en hefði ég verið kennari eða hjúkrunarfræðingur þá hefði ég getað fundið vinnu! Það er vandinn með landsbyggðina að þar eru fá tækifæri fyrir vel menntað fólk á öðrum sviðum en í heilbrigðis- eða menntageiranum.“


Að lækka menntunarstigið


Hvað um þá leið sem nú á að fara til að bæta atvinnulíf fyrir austan?


Stefanía segist sammála því að stóriðja fyrir austan verði vítamínsprauta fyrir byggðarlögin þar og margir muni fá vinnu meðan uppbyggingin stendur yfir. Þegar byggingartímanum lýkur og regluleg starfsemi álvers hefst tekur nýtt skeið við.


„Ákveðinn hópur einstaklinga fær þar vinnu og annar hópur lifir af þjónustu við álverið. Auðvitað verður fullt af Íslendingum sem vinna þarna, en það er í sjálfu sér ekki mikið atvinnuleysi fyrir austan en hins vegar mörg láglaunastörf. Ef þetta verður til þess að breyta því verður þetta til góðs. Einhvern veginn er ég þó þeirrar skoðunar að öll þessi umræða um stóriðju hér og stóriðju þar ýti undir að ungt fólk fari ekki í skóla og mennti sig. Þarf þjóðfélagið á því að halda að lækka menntunarstigið? Við þurfum frekar að hækka það.“


Skortur á verk- og tæknimenntuðum


Stefanía segir að á undanförnum árum hafi orðið fjölgun háskólamenntaðra hér á landi. Þegar kreppir að þá fá ekki allir vinnu við hæfi. Það er raunar háð atvinnugreinum. Er þetta ekki í mótsögn við þá fullyrðingu að fólk eigi að afla sér menntunar? Hvar á menntafólk að fá vinnu ef ástandið er svona?


„Það hefur borið aðeins á því að vel menntað fólk sé án vinnu og nýjustu dæmin eru uppsagnir hjá Íslenskri erfðagreiningu þar sem fjöldi vel menntaðra missti vinnuna. Síðan hefur borið á að margar góðar umsóknir séu á bak við hverja auglýsingu um starf. Það sem gerist er að vinna háskólamenntaðs fólks fylgir oft efnahagssveiflum, í greinum sem eru mjög háðar sveiflum. Það hefur orðið viss samdráttur í hugbúnaðar- og viðskiptageiranum undanfarið sem kemur niður á menntafólki í þeim greinum. Með því að hækka menntastig er ég ekki að tala um að allir fari í háskóla. Aftur á móti er skortur á verk- og tæknimenntuðu fólki. Það þarf líka að efla verkmenntaskóla og bjóða upp á fleiri styttri námsleiðir til að auka breiddina. Þegar horft er yfir sviðið í dag eru tveir hópar mest áberandi, annars vegar háskólamenntað fólk og svo verkafólk. Það vantar að brúa bilið betur. Menntað fólk er líklegra til að laga sig að nýju starfi en aðrir.“


Að brúa menntabilið


Stefanía hætti hjá Iðntæknistofnun haustið 2000 og gerðist framkvæmdastjóri Menntar – samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla. Þar starfaði hún í tæp tvö ár og vann að því að brúa menntabilið.


„Mennt var stofnuð 1998 af Samtökum atvinnulífsins, stéttarfélögunum, framhaldsskólum, aðallega verkmenntaskólum, og háskólunum. Þetta eru regnhlífarsamtök og markmiðið að stuðla að aukinni verkmenntun á Íslandi. Til dæmis með samráði og umsýslu fyrir ákveðna sjóði Evrópusambandsins sem stuðla að aukinni verkmenntun. Verkefnum var skipt í þrjá flokka: Evrópuverkefni, umsýslu fyrir ESB. Sérstök átaksverkefni fyrir menntamálaráðuneytið, eins og viku símenntunar og UT-ráðstefnu. Í þriðja lagi ákveðin þróunarstarfsemi, eins og Upplýsingaveita um námsframboð mennt.is. Þar eru á einu vefsvæði upplýsingar um allt námsframboð fyrir ofan grunnskólastigið.“


Samhliða starfinu hjá Mennt var Stefanía í MBA-námi við Háskóla Íslands og lauk því sl. vor. Hún segir að tíminn hjá Mennt hafi verið mjög góður skóli fyrir starf hennar hjá Tækniháskólanum. En er hún ekki í neinu námi nú?


„Ég er farin að ókyrrast. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að ná mér í nýja þekkingu. Þó að ég sé ekki í skóla er ég alltaf með bunka af bókum á náttborðinu og vildi helst geta lesið tvo tíma á hverju kvöldi. Ég hef alltaf lesið mikið og þegar ég meðtók þá vitleysu sem unglingur að skólaganga væri úr tísku las ég skáldsögur. En frá því að ég uppgötvaði hvað það er gaman að lesa námsbækur og fræðibækur hef ég varla lesið eina einustu skáldsögu.“


Stefanía segist aðallega lesa um viðskipti, stefnumótun, árangursstjórnun, rekstur fyrirtækja og starfsmannamál. „Ég er gríðarlega verkefnadrifin og gríp fegins hendi ef ég finn betri aðferðafræði við að koma hlutum í verk. Svo er einn bókaflokkur, sem tæplega telst til námsbóka, sem ég hef mjög gaman af að lesa. Það eru sálfræðitengdar bækur, bækur um að þekkja sjálfan sig. Í þessum bókum fær maður reglulega áminningu, þær minna mann oft harkalega á hvað betur má fara og hjálpa manni að komast í gegnum ólgusjóina. Ég á til dæmis allar bækur Brians Tracy. Ein þeirra er bókstaflega að detta í sundur vegna lesturs. Þótt sumt sé yfirborðskennt þá er í þeim góður og gagnlegur boðskapur. Heilbrigð almenn skynsemi um að setja sér markmið í lífinu og hvernig á að ná þeim.“


Tækifærið í Tækniháskólanum


Tækniháskóli Íslands var stofnaður formlega 1. júní sl. Eins og nafnið bendir til er skólinn háskóli og „leggur áherslu á að veita hagnýta menntun á tæknisviðum“ eins og segir í nýsamþykktum reglum skólans. Starf rektors var auglýst laust til umsóknar í byrjun maí sl. og Stefanía sendi inn umsókn sína á síðasta degi umsóknarfrests.


„Ég fékk að vita síðdegis á föstudegi 28. júní sl. að ég væri skipuð rektor og ætti að byrja mánudaginn 1. júlí. Þá var ég á leið í sumarfrí og ekki hætt hjá Mennt,“ segir Stefanía. „Í stað sumarleyfis var ég því farin að vinna á tveimur stöðum. Ég skilaði af mér hjá Mennt og fór að kynna mér hlutina hér. Það er varla hægt að segja að ég hafi fengið sumarfrí í ár. Ég tek það bara næsta sumar.“


Stefanía segir að tvær ástæður hafi verið helstar fyrir því að hún sótti um starfið. Í fyrsta lagi áhugi hennar á menntun og skólamálum. „Ef maður hefur brennandi áhuga á einhverju reynir maður að komast í stjórnunarstöðu á því sviði til að geta látið gott af sér leiða. Í öðru lagi var Tækniskólinn búinn að vera í lausu lofti í nokkur ár og framtíð hans óráðin. Ýmist átti að leggja hann niður, selja hann, sameina öðrum eða breyta. Í 3-4 ár var lítið vitað um hvernig skólanum myndi reiða af. Þegar tekin var ákvörðun um að breyta skólanum formlega í háskóla sá ég gríðarlega mörg spennandi tækifæri við uppbygginguna. Það hefur reynst rétt og þetta hefur verið magnaður tími. Það er tækifæri lífsins að fá svona stofnun í hendurnar og byggja hana upp.“


Rammi skólastarfsins er annars vegar lög frá Alþingi og hins vegar reglur um Tækniháskóla Íslands sem samþykktar voru af háskólaráði THÍ 22. nóvember sl.


„Nú þegar reglurnar eru komnar er hægt að fara að byggja upp fyrir alvöru,“ segir Stefanía. „Í haust höfum við keyrt á gamla kerfinu, því það tekur tíma að innleiða nýja hluti. Í dag eru auglýstar stöður deildarforseta yfir kennsludeildunum. Við reiknum með að ráða þá eftir áramótin. Þá má segja að burðarvirkið í sé komið. Síðan tekur við að byggja upp vinnuferla. Við byrjum fljótlega að vinna að stefnumótun þar sem við skilgreinum framtíðarsýn og stefnu skólans. Í framhaldi af því ætla ég að innleiða árangursstjórnun sem nefnist samhæft árangursmat. Sú aðferðafræði mun hjálpa okkur að taka stefnuna og koma henni í framkvæmd.“


Nú eru sjö aðaldeildir við skólann, þar af ein frumgreinadeild á framhaldsskólastigi. Í framtíðinni verða þrjár deildir á háskólastigi: Tæknideild, heilbrigðisdeild og rekstrardeild, auk frumgreinadeildarinnar.


„Það kemur að okkur að þróa nýjar námsbrautir. Til dæmis verður boðið upp á nám í rafmagnstæknifræði til BS-gráðu í fyrsta sinn á Íslandi. Það eru miklir möguleikar á að bæta við nýjum námsbrautum með samkennslu í deildum skólans. Við munum einnig fara að undirbúa meistaranám og rannsóknaumhverfi á næstu árum. Þá munum við huga að því að bjóða upp á fjarnám og símenntun. Umhverfið hreinlega kallar á það.“


Vantar fleiri nemendur


Stefanía segir að Tækniháskólinn byggi á traustum grunni og bjóði upp á öflugar námsbrautir.


„Ég vil leggja áherslu á að fjölga nemendum í skólanum og þá sérstaklega í tæknigreinum. Nú eru þeir of fáir á mörgum sviðum sem gerir rekstrareiningarnar óhagkvæmar. Á næstu vikum munum við leggja áherslu á að kynna skólann undir nýju nafni og merki. Bæta ímynd skólans. Það hefur verið talað um að þessi skóli hafi verið eitt best geymda leyndarmálið í menntakerfinu.“


Stefanía segir að Tækniháskólinn muni marka sér bás í hópi íslensku háskólanna átta. „Okkar sérstaða verður fyrst og fremst á sviði tækni- og heilbrigðisgreina. Munurinn á tæknifræðináminu hér og verkfræðinni í Háskóla Íslands er heilmikill. Okkar nám tekur meira mið af hagnýtum lausnum og nemendasamsetningin er önnur. Stór hluti af okkar nemendum eru iðnaðarmenn sem hafa verkþekkingu og eru eldri en nemendur í öðrum háskólum oft á tíðum.


Heilbrigðisgreinarnar, meinatækni og geislafræði, eru hvergi kenndar annars staðar. Rekstrardeildin hjá okkur hefur töluverða sérstöðu og leggur áherslu á markaðsfræði og vörustjórnunarfræði.“


Stefanía væntir þess að áherslan, uppbyggingin og fjölgun nemenda verði fyrst og fremst í tæknigreinunum. En hvernig er kynjaskiptingin?


„Nemendur í tæknigreinunum eru langflestir karlkyns, í rekstrardeildinni er hlutfall kynjanna næstum jafnt og í heilbrigðisdeildunum eru nánast eingöngu konur.“ Í Tækniháskólanum eru nú um 700 nemendur og hlutföll kynjanna eru 62% karlar og 38% konur. Fastráðnir starfsmenn eru um 60-70 og um 200 stundakennarar.


Stefanía segir skólann í brýnni þörf fyrir betra húsnæði. Í dag er skólinn í leiguhúsnæði á Höfðabakka 9, iðnaðarhúsnæði sem ekki er beint heppilegt til skólahalds.


„Vonandi finnst lausn á því fljótlega,“ segir Stefanía. „Það fer ekki saman að vera með Tækniháskóla og geta ekki boðið upp á þá tækni sem nútíminn krefst. Í þessu húsnæði er til dæmis ekki gert ráð fyrir þeirri miklu tölvustarfsemi og rafmagnsnotkun sem skólastarfið krefst. Það er skiljanlegt að húsnæðismálin hafi verið í biðstöðu meðan óvissa ríkti um skólann. Nú er biðstaðan á enda og við horfum langt fram á veg. Við erum best og ætlum að vera enn betri. Hér verður toppfólk sem stýrir skólanum fram á veg og frábærir kennarar sem bjóða nemendum það besta í miðlun fræða. Slæmt ef umgjörðin hamlar því.“


Líf utan vinnu


Stefanía reynir að eyða sem mestu af frítíma sínum með dætrunum og segist aðspurð eiga mikið líf utan vinnunnar.


„Ég hef áhuga á alltof mörgu! Ég hleyp með trimmhópi Grafarvogs, sem er afskaplega skemmtilegur félagsskapur. Við erum búin að hlaupa saman í tíu ár. Þar reyni ég að mæta þrisvar í viku og oftar á sumrin. Þá á ég sumarbústað austur í Lóni ásamt bræðrum mínum, auk þess að eiga athvarf austur á Jökuldal. Allt mitt fólk býr fyrir austan. Ég hleð batteríin með því að fara austur og reyni að komast út úr bænum eins oft og ég get og þá með fjölskyldunni. Ég nýt þess virkilega að vera fyrir austan.


Mér finnst veturnir frábærir þegar er snjór. Þá kemst maður á skíði. Ég er ekkert ánægð með að hafa sumar fram að jólum og vor frá jólum. Svo er bridsspilamennskan ómissandi í mínu lífi. Ég reyni að spila brids helst vikulega allan veturinn. Ég er í einstaklega góðum bridsklúbbi með nokkrum kjarnorkukonum. Við skemmtum okkur mikið. Okkur á ekki eftir að leiðast í ellinni!


Á sumrin vil ég helst vera á fjöllum. Ég er í gönguhópi sem fer í eina 4-5 daga ferð á sumri með bakpoka. Við reynum alltaf að fara á nýjar slóðir og skoða landið. Svo fer ég sjálf heilmikið.


Svo á ég góðar veiðigræjur og veiði oft silung og hef líka gengið til rjúpna. Ég náði mér í byssuleyfi og keypti mér byssu. Maður getur ekki verið Jökuldælingur án þess að eiga byssu!“


En veiðir þú þá ekki hreindýr eins og sönnum Jökuldælingi sæmir?


„Ég hef oft farið með á hreindýraveiðar, en ekki skotið hreindýr sjálf. Það er ekkert grín að meðhöndla hreindýrariffil! Yfirleitt er það það eina sem ég á í kistunni hreindýr og eitthvert fuglakjöt. Ég fékk miklu oftar hreindýrakjöt sem barn heldur en fisk. Að fá fisk var veisla! Nú sækist ég ekkert sérstaklega eftir að borða hreindýrakjöt. En það er gaman að búa til veislu úr hreindýrakjöti fyrir aðra. Ég mundi ekki biðja um hreindýrakjöt á veitingastað, frekar fengi ég mér góðan fiskrétt!“


gudni@mbl.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *