FRÉTTABRÉF
Rétt er að vekja athygli á umtalsverðum breytingum sem átt hafa sér stað í starfsemi Evrópusamtaka röntgenlækna undanfarið og er þetta fréttabréf hugsað til að kynna meðlimum Félags íslenskra röntgenlækna þær.
Gróft séð hefur mátt skipta starfsemi samtaka röntgenlækna í Evrópu milli þrennra samtaka. Þessi samtök hafa verið EAR- European Assosiation of Radiology, ECR- European Congress of Radiology og UEMS (chapter radiology)-Union Européenne des Medicins Spécialistes ( European Union of Medical Specialists). Þó að stafsemi þessara samtaka hafi að einhverju leyti skarast eins og við er að búast, má samt segja að EAR hafi séð um málefni sem í grundvallaratriðum eru af fræðilegum grunni s.s. stuðning við rannsóknir, kennslumál og hagsmuni sjúklinga ásamt myndun tengslanets við framleiðendur og vísindasamfélagið og hafa samtökin á þann hátt myndað vettvang fyrir röntgenlæknafélög aðildarlandanna. ECR hefur séð um ráðstefnuhald, m.a. hina árlegu Vínarráðstefnu sem haldin er í mars, og UEMS-chapter radiology séð um hagsmunagæslu sérfræðinga gagnvart Evrópusambandinu enda sá aðili sem helst hefur beintengingu við Brussel. Á þeirra sviði hafa verið málefni eins og samhæfing á menntunarkröfum röntgenlækna milli landa, frjálst flæði röntgenlækna innan Evrópu sem og þau vandamál önnur sem upp koma með stækkandi Evrópusambandi svo nokkuð sé nefnt. UEMS skiptist í yfirsamtök, þar sem Arnór Víkingsson hefur verið fulltrúi Læknafélagsins og síðan eru undirsamtök (chapters) sérgreina innan læknisfræðinnar þ.á.m fyrir röntgen. Félag íslenskra röntgenlækna hefur verið þátttakandi í starfsemi EAR/ECR en ekki í starfsemi UEMS- chapter radiology, raunar eina landið í Evrópu sem það gerir ekki.
Fyrir allnokkru var tekin sú tímamótaákvörðun að steypa EAR og ECR í ein samtök, European Society of Radiology – ESR. Eftir mikla undirbúningsvinnu voru þessi nýju samtök formlega stofnuð þann 10. desember 2005. Stefnt er að því að sameiningunni verði lokið eigi síðar en í mars 2008.
Aðalmarkmið sameiningarinnar er að halda utanum European Congress of Radiology, sem er meginráðstefna á sviði myndgreiningar í Evrópu. Auk þessa er takmarkið að auka á slagkraft samtakanna með því að samræma í meiri mæli alla þá vinnu sem nauðsynleg er í öðru starfi samtakanna og hefur farið fram innan tveggja samtaka til þessa.
Megin viðfangsefni ESR taka til samræmingar sérfræðiprógramma myndgreiningar í Evrópu, myndun og þróun nýrrar rannsóknarmiðstöðvar (EIBIR – European Institute for Biomedical Imaging Research), að teygja kennslustarfsemi til svæða utan sem innan Evrópu (ESOR – European School of Radiology), og að auka gæði þjálfunar og þjónustu á sviði myndgreiningar í Evrópu.
Hér eru að sjálfsögðu á ferðinni stórmál og mikil hagsmunamál bæði fyrir röntgenlækna og sjúklinga.
Það er augljóst að með stækkandi Evrópusambandi eykst flutningur á vinnuafli milli landa og eru röntgenlæknar þar engin undantekning. Mismunandi undirbúningur og þjálfun röntgenlækna hefur verið mál sem hvert land um sig hefur þurft að leysa innanlands. Samræming sérfræðiprógramma auðveldar flutning vinnuafls og þekkingar röntgenlækna milli landa og tryggir jafnframt hagsmuni sjúklinga.
Hugmyndin með að koma á fót sérstakri rannsóknarmiðstöð í röntgen er að geta á þann hátt samræmt aðgerðir til að geta tekist á við stærri rannsóknarverkefni sem annars væru hverju landi fyrir sig ofviða.
Í starfi samtakanna eru fjórar mikilvægar nefndir.
Kennslunefndin er ráðgefandi um menntunarmál samtakanna í breiðum skilningi. Hún er meðal annars ábyrg fyrir uppsetningu viðmiða og markmiða þjálfunar unglækna og endurmenntunar, sem og undirsérgreina. Þessi nefnd hefur nýverið sent frá sér mjög ítarlegar markmiðslýsingar hvað þetta varðar. Fulltrúi okkar þar er Guðmundur Jón Elíasson.
Rannsóknarnefndin er ráðgefandi varðandi slík mál og hefur á sinni könnu meðal annars stofnun EIBIR miðstöðvarinnar. Það starf er í gangi nú þegar og er tilgangurinn að samræma starfsemi þeirra rannsóknastofa innan röntgen sem þegar fást við vísindastarfsemi í faginu. Í heild hafa 150 stofnanir í 21 landi lýst yfir áhuga til að taka þátt í myndun EIBIR. Á vegum allra þessarra stofnanna starfa í dag 2900 rannsakendur, með 165 milljóna Evra rannsóknarfjármagn til ráðstöfunar og gefa árlega út meira en 2700 greinar í ritrýndum vísindatímaritum. Það er því augljóst hver slagkraftur slíkra stofnana yrði í einni miðstöð. Fulltrúi okkar í þessari nefnd er Birna Jónsdóttir.
Starfsskipulagsnefndin (Professional Organisational-POC) er ábyrg fyrir ýmsu í starfsumhverfi röntgenlækna. Á hennar könnu er m.a Management in Radiology ráðstefnan sem haldin er árlega með um 300 manna þátttöku. Fjarlestur röntgenrannsókna hefur sett röntgensamfélagið undir þrýsting og það er á hlutverkaskrá þessarar nefndar að hafa áhrif á í hvaða átt þessi óhjákvæmilegi hluti okkar starfs þróast. Nefndin stefnir að útgáfu viðmiða (White Paper) m.a. til að tryggja að gæði fjarlestrar röntgenmynda sé sambærilegur milli landa en útgangspunktur í starfi nefndarinnar hvað þetta varðar eru hagsmunir sjúklinga.
Þessi nefnd starfar mjög náið með UEMS – chapter radiology enda skarast viðfangsefnin mjög. Því sitja oft sömu einstaklingar í POC nefndinni og eru fulltrúar sinna landa í UEMS. Hins vegar stendur UEMS – chapter radiology fyrir utan stofnun ESR. Ísland á ekki fulltrúa í þessari nefnd, staðan er laus ef einhver hefur áhuga.
Þá er ógetið undirsérgreinanefndar þar sem fulltrúar 10 viðurkenndra undirsérgreinasamtaka í Evrópu hafa tækifæri til að skiptast á skoðunum og reynslu.
Það er auljóst að starfsemi þessarra samtaka verður mikilvægari eftir því sem meðlimaríkjum Evrópusambandsins fjölgar. Samkeppnishæfni hinna yngri meðlimaríkja við þau kjör sem bjóðast í hinum betur settu ríkjum sambandsins eru að sjálfsögðu hornsteinn þeirrar uppbyggingar sem fram þarf að fara innanlands í þessum löndum. Þjálfunarprógrömm sem sett eru upp af hálfu sambandsins eru nauðsynleg viðmið og gefa auk þess þeim löndum sem eru að berjast við koma upp sérnámi í röntgen, oft við lítið fjármagn og lítinn pólitískan skilning, vopn í þeirri baráttu. Það er svo að engin er eyland í nútíma starfsumhverfi, Ísland ekki undanskilið.
Nokkrir tenglar:
http://www.esr-online.org/
http://www.uems.net/
http://www.uems.net/Radiology
http://www.ear-online.org/
Með kveðju,
Magnús A. Lúðvíksson