Framtíðarskipulag

Af umferðinni að dæma er myndgreiningarfólk ánægt með það efni sem við höfum birt á vefsetrinu. Stöðug þróun er í gangi og við viljum gjarna fá ykkar álit.

Undanfarið ár hefur notkunin verið að aukast, þó mánuðirnir séu misjafnir:


#img 1 #
Skoðið fleira en forsíðuna

Heimsóknir eru núna að meðaltali um 60 á dag, flestir líta inn á mánudögum en samt er umferðin býsna jöfn yfir vikuna. Fjöldi síðna sem hver les eykst sífellt, eftir því sem fleiri uppgötva hversu mikið efni er til, en þó eru því miður nokkrir sem einungis kíkja á forsíðuna öðru hverju og virðast ekki átta sig á að fletta upp eldri fréttum og greinum, jafnvel þó meira en ein vika sé síðan þeir litu síðast inn á vefsetrið.
Eins og nokkrum sinnum hefur komið fram er forsíðan uppfærð á hverjum mánudegi og einnig bætist við efni þar fyrir utan, t.d. þegar við rekumst á athyglisverða vefsíðu og búum til tengil við hana. Einnig er sífellt að bætast í „Á döfinni“ þar sem finna má upplýsingar um námskeið, fundi, ráðstefnur og annað slíkt, bæði hérlendis og erlendis.

Ritstjórnarforritið uppfært á þessu ári
Seinna á þessu ári verður ritstjórnarforrit www.raforninn.is uppfært og þá höfum við möguleika á að bæta við ýmsu sem ákveðið var að hafa ekki með í byrjun, nú eða taka út eitthvað sem reynslan hefur sýnt að ekki hentar.
Nokkrir af lesendum okkar hafa sýnt áhuga á að fá sjálfvirka tilkynningu í tölvupósti þegar nýtt efni kemur inn á vefsetrið. Þessi möguleiki ætti að verða fyrir hendi á árinu.
Einnig barst fyrirspurn varðandi spjallþræði (discussion forum) þar sem hægt væri að skiptast á skoðunum, bæði út frá ýmsu sem birtist á vefsetrinu og einnig hverju sem er í faginu. Ritstjóri hefur alltaf hvatt lesendur til að senda tölvupóst með skoðunum á hinum ýmsu málum og flýtt sér að koma slíku á framfæri eða fá viðkomandi til að skrifa fókusgrein um málið. Gott væri að vita hvort fólki fyndist þægilegra að hafa umræðusvæði á vefsetrinu.

Svörun og hugmyndir
Margt fleira en ofangreint mætti áreiðanlega láta sér detta í hug. Einnig er örugglega eitthvað í uppsetningunni eins og hún er núna sem betur mætti fara. Gests augað er alltaf gleggst en hinsvegar mjög erfitt að leggja mat á eigin vinnu. Þegar búið er að benda á eitthvað skilur maður oft ekki hvernig í ósköpunum hægt var að láta sér sjást yfir það fram að því!
Það er því ómissandi fyrir okkur öll að fá svörun og hugmyndir hvert frá öðru. Allt myndgreiningarfólk hefur mikið að gera og stundum er álagið alveg óþolandi en samt ætla ég að biðja ykkur um að gefa www.raforninn.is nokkrar mínútur þar sem þið hugsið ykkur um og sendið síðan póst með nytsömum ábendingum til ritstjóra

Bestu þakkir.
19.01.04 Edda Aradóttir. 
     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *