ECR í Vín sótti ég til að sinna nokkrum ráðgjafaverkum og fræðast lítið eitt.
Gott ferðalag
Ég bókaði flug, hótel og bílaleigu á síðustu stundu. Mér finnst gott að vera á bíl og hafa þá frelsi með hótelstaðsetningu. Eina trausta flugið á þolanlegu verði var um Heathrow. Ég fór af stað á fimmtudegi og kom til baka á mánudegi. Ferðalagið gekk vel og slæmar minningar frá Heathrow gufuðu upp þegar öll þjónustu var fyrsta flokks, allt stóðst og farangurinn skilaði sér.
Ferðatækni
Oft get ég unnið fullan vinnudag á ferðalögum, þar sem litla fartölvan mín hentar mjög vel til að vinna í þröngum sætum. Fyrir lendingu í Vínarborg sló ég hótelið inn i GPS tækið þannig að ég gæti ýtt á GO þegar í bílaleigubílinn væri komið.
Mér kom á óvart hversu þétt umferðin í Vín var á fimmtudagskvöldi og tók um 45 mín að keyra 20 km. Vínarbúar er nokkuð harðir á flautunni og snúið getur verið að skipta um akgreinar. Það kom sér því vel hvað GPS tækið gefur akgreinaskipti upp með löngum fyrirvara.
Verkefnin voru eftirfarandi:
Almenn stafræn röntgentæki
Staða mammografíutækni
Starfænar lausnir fyrir notkun í þróunarlöndum
Þróun í skynjaratækni
Þróun CAD kerfa
Kröfur til úrlestrarskjáa.
Tuttugu ára þróun í mammgrafíutækni
Það hefur verið unnið mikið í mammografíutækni s.l. 20 ár. Lítið er um byltingar en þróunin sniglast áfram. Það sem menn voru að byrja að rannsaka fyrir um 20 árum þegar ég lærði mammografíutækni er nú orðið að raunveruleika. Flest það sem við hefur bæst á 20 árum styrkir jafnari og eitthvað hærri gæði.
CAD – úlfur, úlfur!
Mikið einkenni nútímatækni, er að minna á og benda á, en úrskurðargetan er jafnan lítil. CAD er einmitt þannig tækni, sem segir “sjáðu, sjáðu”. Þetta þýðir að mjög þjálfaðir röntgenlæknar hætta að taka nægilegt mark á tækninni og hætta líka stundum að skoða atriði sem þeir veittu athygli áður en CAD kom til. Það er samt staðfest að CAD eykur að jafnaði greiningaröryggið nokkuð mikið með því að jafna getu fólks og dagfar.
Stafrænir skynjarar
Fyrirlesturinn sem ég fór á um skynjara var slappur varðandi nýjustu tækni en gaf gott yfirlit yfir algengustu stafrænu skynjarana. Ekki var minnst á “counting detectors”, sem eru nýjung sem þau okkar sem duttum inn í myndgreiningartækni frá ísótópageiranum erum spennt fyrir. Skynjarar sem höndla hverja fótónu og leyfa í framhaldinu „noise and energy windowing“ er áhugavert viðfangsefni og fyrstu tækin eru komin á markað. Nýjar tegundir skynjara sem fengu umfjöllun voru skynjarar fyrir elastografíu, bæði í ómun og segulómun, og einnig luminografíu. Það eru tvímælalaust miklar framfarir framundan í skynjaratækni. Þeir verða næmari, nákvæmari og ódýrari.
Stafræn þróun í þróunarlöndum
Það er mikill áhugi á verkefnum í þróunarlöndum. Þar er sumsstaðar tveggja stafa hagvöxur og mikill áhuga á endurbótum í heilbriðgismálum. Við hjá Raferninum höfum unnið að lausnum fyrir myndgreiningu í þróunarlöndum sl. 6 ár og menn eru spenntir fyrir að beita þeirri þekkingu.
Hvað þarf öfluga skjái?
Display hópurinnn frá Duke University kynnti nýjustu niðurstöður fyrir greiningarskjái og úrlestraraðstæður. Rosalega flottar rannsóknir á gömlum grunni. Nú var því slegið föstu, sem gilt hefur í nokkuð lengi, að menn eigi að nota 5MP skjái í almennri myndgreiningu. Ráðgjöfin hjá Raferninum hefur tekið mið af þessu sl. 3 ár en það var gott að fá þetta staðfest.
Sjálfvirkur röntgenbúnaður
Það er mikil þróun sjálfvirkni á venjulegum röntgenstofum. Þetta byrjaði sem vinnuverndarmál í Svíþjóð en er núna mikilvægt atrði til að auka framleiðni og hagkvæmni safræns búnaðar.
Ég datt inn á Ítalskan fyrirlestur um hagnað af stafrænni tækni þar sem sýndar voru glæsilegar hagnaðartölur og mikið aukin skilvirkni.
Íslensk framlög
Það er ánægulegt að Íslendingar taka þátt í ECR. Í þetta skiptið voru það: Guðlaugur aðstoðar framkvæmdastjóri geislavarna, Jónina frá Röntgen Domus og Sigurður frá Hjartavernd.
ECR vs RSNA
Fyrir mig er ekki sama gagn að ECR og RSNA en ferðalagið tekur minna á því tímamismunurinn er bara ein klukkustund.
Smári Kristinsson
Raförninn ehf.
19.03.07