Sunnudagur í Vínarborg
Tíu ár eru liðin síðan ég kom síðast á ECR og mikið ótrúlega hefur allt vaxið. Ekki síður að gæðum en vexti. Á öllum sviðum hafa gæðin aukist og það er ánægjulegt að vera í Vínarborg í ár. Í dag skín sólin, trén eru að blómgast og maður skynjar vorið í nánd, mun nær en þessari miklu skíðaþjóð líkar.
Á ráðstefnum hef ég þá reglu að mæta alltaf á fyrsta fyrirlestur hvern morgun, hversu seint sem ég hef komið heim á hótel kvöldið áður. Sunnudagsmorguninn byrjaði með Hedvig Hricak. Hún er balkanskur röntgenlæknir sem hefur unnið í Svíþjóð og Bandaríkjunum og maður rekst á hana hvar sem “MR – pelvis” er á dagskránni á stórum ráðstefnum. Í dag talaði hún um myndgreiningu blöðruhálskirtils og hafði mjög gott vald á efninu.
Eftir það sat ég enn einn fyrirlesturinn um hjartarannsóknir með CT – þann fjórða í vikunni – og endurnýjaði síðan orkuna í síðdegiskaffi með Birnu Jónsdóttur og Smára Kristinssyni. Við fengum okkur kaffi og svolítið sætabrauð og mér varð hugsað til leiðsögumannsins sem ég heyrði um daginn segja þessa gullvægu setningu: “We have beautiful calories here in Wienna”.
Nú er komið að því að ljúka deginum með “Staging of Rectal Cancer” og ekki veit ég hvað Freud hefði getað lesið úr vali mínu á efni í dag!
Kveðjur frá Vínarborg
Jörgen
Snarað úr dönsku 12.03.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is