Í framhaldi af athugasemdum Bjarna Arthúrssonar varðandi frétt Arnartíðinda, dagsetta 13. október 2007.
Stöndum við okkar frétt.
Mér er mikið í mun að hafa rétt eftir heimildamönnum í fréttum Arnartíðinda og þess vegna birti ég aldrei frétt án þess að senda þeim sem ég hef fengið upplýsingar hjá fréttatextann fyrirfram og fá samþykki fyrir birtingunni. Frétt eins og sú sem Bjarni gerir athugasemdir við er ekki rannsóknarritgerð heldur á hún að lýsa upplifun viðmælandans.
Engin gögn hafa verið lögð fram sem breyta aðalatriðum fréttarinnar frá St. Jósefsspítala. Hún var búin að vera öllum aðgengileg á vefnum í sjö vikur áður en Bjarni kom mótmælum sínum á framfæri við starfsfólk spítalans (sjá afrit af tölvupósti) og á þessu sjö vikna tímabili gerði enginn athugasemd við hana.
Hvort það var verð eða annað sem réði mestu þegar fyrra tækið var valið breytir ekki aðalatriðum málsins en ef verðið gildir 40% af matinu þá hafa ódýr tæki mikinn forgang. Hvað nefnda skoðunarferð varðar gildir einu hvort það var ráðuneytið eða St. Jósefsspítali sem greiddi ferðakostnað og í fréttinni er því hvergi haldið fram að farið hafi verið áður en tækin voru boðin út. Hvort Helena mælti skriflega eða munnlega með tækjunum sem seinna voru keypt kom ekki fram í samtali okkar.
Arnartíðindi eru vettvangur myndgreiningarfólks, þar sem hagsmunir fagsins eru í brennidepli. Hvernig Bjarni bregst við fréttinni sýnir ljóslega hversu feikilega viðkvæmt mál það er hjá sumum að myndgreiningarstarfsmaður, í þessu tilviki geislafræðingur, hafi mælt með réttum búnaði fyrir starfsemina þegar aðrir gerðu hugsanlega mistök.
Lítilsvirðing við ritstjórann.
Skrif Bjarna lýsa ótrúlegri lítilsvirðingu í minn garð, sem ritstjóra, þar sem hann gengur út frá því sem vísu að ég leyfi stjórnendum Rafarnarins að stunda einhverskonar árásir í gegnum frétt sem ég skrifa undir eigin nafni. Hann lét meira að segja hjá líða að senda mér afrit af póstinum til framkvæmdastjóra Rafarnarins. Ég hefði ekki trúað því að sending með svo niðurlægjandi viðhorfi og orðalagi kæmi frá ráðuneyti en Bjarni lætur það ekki fara á milli mála, hvorki í athugasemdum sínum né svari við pósti frá mér.
Ég get fullvissað Bjarna, og alla aðra, um að þegar stjórnendur Rafarnarins vilja koma skoðunum sínum á framfæri á vefsíðu fyrirtækisins verða þeir að skrifa um þær undir fullu nafni og að öllu jöfnu væri þeim boðið að skrifa fókusgrein en ekki frétt.
Smári svarar fyrir Raförninn.
Ég bað Smára Kristinsson, framkvæmdastjóra, að svara ásökunum á hendur Raferninum:
“Bjarni þessi hefur lengi verið í einhverskonar ráðuneytiskrossferð gegn Raferninum” sagði Smári. “Fullyrðing hans um að við höfum sett upp tæki á St. Jósefsspítala án samráðs við okkar viðskiptavini er býsna reyfarakennd. Hvernig staðið var að ákvörðun um staðsetningu umræddra tækja er nákvæmlega skráð í verkkerfi Rafarnarins, 24. nóvember 2005. Ráðgjafar Rafarnarins taka ekki ákvörðun um tækjastaðsetningu, þeir gefa ráð. Þetta mál var hinn mesti sirkus og það gæti verið gaman að skrifa um það, ef maður ætti “afgangs” lífdaga.”
17.12.07 Edda Guðbjörg Aradóttir edda@raforninn.is