Athugasemdir Bjarna Arthúrssonar

From: Bjarni Arthursson [mailto:bjarniar@landspitali.is]
Sent: 16. nóvember 2007 10:56
To: Smári Kristinsson
Subject: Athugasemd við frétt.

Athygli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur verið vakin á pistli á heimasíðu fyrirtækisins undir flipanum “Arnartíðindi”. Pistillinn ber yfirskriftina “St. Jósefsspítali kemur sterkur inn” . Í kaflanum sem ber heitið “Nauðsynlegt að skipta um tæki” eru settar fram margar fullyrðingar sem eru langt fjarri öllum sannleika um hið rétta varðandi það hvernig staðið var að tækjakaupum. Vegna þessa óskum við eftir að eftirfarandi leiðrétting verði birt á jafn áberandi stað á heimasíðunni.

Endurnýjun röntgentækja á St. Jósefsspítala var unnin í náinni samvinnu ráðuneytisins, spítalans og ráðgjafa á vegum ráðuneytisins sem er bæði rafmagnsverkfræðingur og eðlisfræðingur með sér menntun á sviði geislafræði. Tækin voru keypt að undangengnu útboði á vegum Ríkiskaupa fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vegna spítalans. Í útboðinu eru ítarlegir kaflar með lýsingu á þeim kröfum sem gerðar voru til þess tækis sem kaupa átti. Einnig koma þar fram hvernig staðið yrði að mati á tilboðum. Gefnar voru einkunnir fyrir tíu atriði. Þar á meðal var verð fyrir tækin, en verðþátturinn gilti aðeins fyrir 40% af heildareinkunn fyrir valinu. Þannig skipuðu aðrir þættir en verð meirihluta ákvörðunar. Vegna þessa er aðeins unnt að velja tæki til kaupa á þeim forsendum sem fram komu í útboðslýsingu. Ekki er hægt að vera með neinar breytingar á vali eftir að tilboðsfrestur rennur út.

Í grein í Arnartíðindum er því haldið fram að hópur á vegum spítalans hafi farið að skoða ýmis tæki. Hið rétta er að þegar tilboð í tækin höfðu verið opnuð og búið var að gefa boðnum tækjum flestar einkunnir í samræmi við útboðslýsingu fór hópur á vegum ráðuneytisins að skoða tækin sem helst komu til greina á grundvelli einkunnagjafar. Í þeim hópi voru m.a. starfsmenn spítalans og framangreindur ráðgjafi ráðuneytisins. Engin ferð var farin á vegum spítalans áður en tækin voru boðin út svo sem stendur í greininni. M.a. þurfti að skoða tækin með tilliti til einkunnagjafar fyrir “user friendliness and ergonomi”. Enginn ágreiningur var innan nefndarinnar um einkunnagjöf fyrir þennan þátt frekar en aðra þætti einkunnagjafar. Það er því rangt sem sagt er í greininni “ ……..eftir þá ferð mælti Helena með röntgentækjum af þeirri gerð sem nú eru komin”.

Í greininni er einnig sagt “Í ráðuneytinu var hinsvegar tekin sú ákvörðun að láta verðið ráða og keypt var ….” Svo sem að framan greinir gilti verðþáttur einkunnar aðeins 40% af heildareinkunn. Það verður því að taljast mjög ónákvæmt af Raferninum að gefa það til kynna að verðlag hafi ráðið ákvörðun. Allar einkunnir fyrir tilboð voru send Ríkiskaupum á sínum tíma ásamt skýrslu upp á 22 blaðsíður um mat á tilboðum. Samt telur Raförninn sér sæma að dylgja um annað.

Þess ber að geta að fyrra tækið sem keypt var og skoraði hæst í tilboði reyndist ekki uppfylla þær kröfur sem framleiðandi fullyrti í tilboðsgögnum að það gerði. Skakkaði þar í stórum atriðum. Ein af kröfum til tækisins var sú að það kæmist fyrir þversum í röntgenherberginu. Seljandi fullyrti í tilboði sínu að tækið uppfyllti þau skilyrði. Þegar tækið var komið á staðinn og undirbúningur undir uppsetnigu hófst komst Raförninn að því að tækið kæmist ekki fyrir þversum í herberginu. Í stað þess að tilkynna seljanda, sem verkkaupa uppsetningar, um það ákvað starfsmaður Rafarnarins að halda áfram með uppsetningu, en láta tækið snúa langsum. Hefði ráðuneytið og seljandi haft upplýsingar um þennan ágalla þegar hann kom upp hefði tækinu verið skilað, enda hefði það lækkað einkunnagjöf til mats á vali það mikiðað annað tæki var hærra í einkunn. Hefði þá strax verið farið í það að semja um það tæki sem næst var í einkunnagjöf. Þá hefðu þær breytingar sem um er rætt í pistlinum ekki komið til greina. Það var fyrst þegar tækið var upp komið og farið var að prufukeyra það sem seljandi og ráðuneytið sem útboðsaðili komust að hinu sanna.

Þess skal getið, vegna þeirra upplýsinga sem fram koma í pistlinum, að framleiðandi fyrra tækisins féllst á það að greiða umtalsverðar bætur þar sem tækið uppfyllti ekki þá getu sem það var sagt búa yfir.

Þegar ljóst var að ekki væri unnt að notast við upphaflega tækið og því skilað var farið í það að semja um kaup á því tæki sem kom næst í röðinni í einkunnagjöf. Vegna fullyrðinga um að verð hafi verið látið ráða vali skal þess getið að síðara tækið var ekki einu sinni næst ódýrast en skoraði samt hæst í heildarstigafjölda og varð þessvegna fyrir valinu.

Kveðja, Bjarni Ben. Arthursson
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
Ábyrgðarmaður innkaupa
Bjarni Ben. Arthursson
Ármúla 1a
108 Reykjavík
Sími IS +354 5431503 Call eða IS +354 8974753 Call
mailto:bjarniar@landspitali.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *