Ágrip meistararitgerð Jaroslava Baumruk

Ágrip af lokaverkefni Jaroslövu Baumruk, í desember 2008: „Geislaskammtar í hjarta við geislameðferð gegn brjóstakrabbameini“.

Aukin tíðni hjartasjúkdóma er þekkt afleiðing geislameðferðar við meðhöndlun brjóstakrabbameins einkum á árum áður þegar stuðst var við ófullkomnari tækni og tækjabúnað. Með þróun í hugbúnaði og myndgerð hafa meðal annars komið fram nýjungar á borð við styrkmótaða geislameðferð (Intensity Modulated Radiation Therapy) og öndunarstýrða meðferðartækni (Respiratory Gating) sem gera kleift að bæta geisladreifingu innan meðferðarsvæðis og það sem meira er áhættulíffærum (Organs at Risk) eins og hjarta er hlíft við háum geislaskömmtum.

Markmið rannsóknarinnar var að meta geislaskammtinn í hjarta sjúklinga sem fengu skáreita geislameðferð á brjóstvef. Ennfremur að kanna hvort öndunarstýrð geislameðferð hlífi áhættulíffærum eins og hjarta og hvort styrkmótuð geislameðferð auki nákvæmi í dreifingu geislaskammta innan meðferðarsvæðis og áhættulíffæra.
Þátttakendur voru 20 konur sem höfðu gengist undir fleygskurð vegna brjóstakrabbameins á vinstra brjósti á tímabilinu janúar til september 2007.

Hefðbundnar tölvusneiðmyndir (CT myndir) voru teknar af brjósti og brjóstholi við eðlilega öndun. Teknar voru sambærilegar tölvusneiðmyndir þar sem sjúklingur dregur að sér andann og heldur honum niðri meðan myndataka fer fram. Gert var hefðbundið geislaplan grundvallað á hefðbundnum tölvusneiðmyndum og annað byggt á myndum teknum þegar sjúklingur hefur dregið að sér andann og heldur honum niðri til að sjá
áhrif öndunarstýrðrar geislameðferðar á geisladreifingu innan meðferðarsvæðis og í hjarta. Auk þess var gert styrkmótað geislaplan grundvallað á tölvusneiðmyndum teknum þegar sjúklingur hefur dregið að sér andann og heldur honum niðri.

Í viðmiðunarhópnum voru 20 konur með krabbamein í vinstra brjósti og aðrar 20 í því hægra, valdar af handahófi. Þær höfðu fengið hefðbundna geislameðferð á árunum 2005-2006. Geisladreifing innan meðferðarsvæðis og í hjarta var könnuð hjá þeim til samanburðar.

Gerð voru skammtadreifirit og skráðir voru hámarks, lágmarks og meðaltals geislaskammtar fyrir meðferðarsvæðið og hjarta, bæði með venjulegri hefðbundinni geislaplönun og plönun grundvallaðri á öndunrstýrðri sneiðmyndatöku. Í ljós kom að óveruleg hætta er á að fá óæskilega háa geislaskammta í hjarta með öndunarstýrðri meðferð. Hún sýnir tölfræðilega marktækt minni geislaskammt í hjarta.
Samkvæmt niðurstöðum í þessu verkefni fengu 20% sjúklinga meira en 40 Gy í 3% af rúmmáli hjarta miðað við hefðbundna skáreitameðferð á vinstra brjóst. Þegar skoðuð var öndunarstýrð meðferð fékk enginn sjúklingur 40 Gy í 3% af rúmmáli hjarta.
Styrkmótuð geislameðferð bætir enn frekar geisladreifingu innan meðferðarsvæðis og hlífir hjartavöðvanum betur. Þar fékk enginn sjúklingur 40 Gy í 2% af rúmmáli hjarta.

Ályktun þessa verkefnis er að öndunarstýrða geislameðferð ætti að taka í notkun á Landspítala fyrir sjúklinga með brjóstakrabbamein, sem fá geislameðferð á brjóstvef eða brjóstsvæðið, til að hlífa hjarta við ónauðsynlegri geislun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *