Ráðstefna geislafræðinga í Cameroun.
Fimmta ráðstefna Félags geislafræðinga í Cameroun var haldin í Cameroun dagana 1. – 3. október 2009, í borginni Douala. Ráðstefnan var skipulögð í samvinnu við Philippe Gerson frá Frakklandi, með stuðningi alþjóðasamtaka Geislafræðinga, ISRRT.
Þar sem ég er varaforseti ISRRT fyrir Afríku og Evrópu þá var ég fulltrúi þeirra á ráðstefnunni.
Heppin með sessunaut.
Ég lenti í Cameroun seint um kvöld þann 30. september. Ég ferðaðist ein þar sem Frakkarnir voru þegar komnir á staðinn.
Eins og oft þegar farið er að nálgast lendingu sá maður niður á land úr lofti. Það sem vakti athygli mína var niðamyrkur sem grúfði yfir öllu. Það eina sem gaf til kynna að þarna væru hús var daufur glampi tunglskins á þökum þeirra.
Sessunautur minn í flugvélinnir var franskur og hagvanur í Cameroun. Hann áttaði sig á að ég hafði ekki hugmynd um hvað beið mín og tók mig í kennslustund varðandi það síðasta klukkutíma flugsins. Ég var ekki komin út úr flugvélinni þegar óvissan tók yfir en ég átti að senda SMS til frönsku geislafræðinganna og fá upplýsingar um hver tæki á móti mér og hvernig ég kæmist á hótelið. Síminn minn náði ekki sambandi og gerði það aldrei allan tímann sem ég var í Cameroun.
Ótrúleg lífsreynsla í flugstöð.
Þegar við komum í flugstöðvarbygginguna tók við mikill hiti og voru daufar ljóstýrur eina lýsingin. Það var augljóst að þarna er rafmagn notað mjög sparlega. Enginn rafmagnsstigi var eins og við eigum að venjast.
Í flugstöðinni var allt fullt af fólki en það voru engin skilti eða kallkerfi. Starfsfólk var því hrópandi og kallandi á farþega til að beina þeim rétta leið. Það var gert á frönsku. Enginn sagði orð á ensku þó að fólkið í landinu sé flest bæði frönsku- og enskumælandi.
Fyrir mér var þetta eitt stórt kaos, engar merkingar, raðir eða straumur manna til að fylgja. Þar sem starfsmenn voru uppteknir við að hrópa og kalla var ekki hægt að ná eyrum þeirra með spurningar eða óskir um leiðbeiningar á ensku. Ég var afar þakklát franska sessunautnum mínum fyrir ráðleggingarnar sem hann gaf mér í flugvélinni. Þrisvar sinnum þurfti ég samt að leita til hans og fá hjálp við að komast inn í landið. Óumbeðinn hafði hann auga með mér allan tímann og var aldrei langt undan. Ég get ekki lýst þakklæti mínu vegna þessa og veit ég ekki hvernig þetta hefði farið án hans hjálpar.
Móttökur í myrkri.
Þegar komið var út úr tollinum var komið beint út á bílaplan. Þar stóð fólkið sem var að taka á móti farþegum. Þau sem áttu að sækja mig biðu þar og ætluðu að vera með spjald með nafninu mínu svo við myndum finna hvert annað. Það þurfti ekkert spjald, þau þekktu mig undir eins, hvítu konuna sem var ein á ferð. Ég þyki hvít saman borið við aðra Íslendinga þannig að í Afríku var ég eins og endurskinsmerki.
Á leiðinn á hótelið var það myrkrið og mannfjöldinn sem vöktu athygli mína. Það var mikil umferð gamalla bíla og mótorhjóla og fótgangandi fólks. Það var nánast engin lýsing á götunum. Bílar og mótorhjól voru í flestum tilfellum ljóslaus. Enginn notaði hjálm og keyrðu menn ekki í röð eftir akgreinum heldur tróðu þeir sér hlið við hlið á bílum eða hjólum eins og pláss leyfði. Ég var skíthrædd um að við myndum keyra á einhvern vegna þess að þarna var niðamyrkur, bílar og hjól ljóslaus og mikil gangandi umferð fólks sem allt var svart og án endurskinsmerkja.
Minnstu verslanir í heimi.
Ég bjó á Hótelinu, eins og það var kallað, en það er eina hótelið sem talið er öruggt fyrir hvíta útlendinga. Það var afgirt með háum veggjum og öflugu hliði. Vopnaðir verðir voru fyrir innan og utan hlið og við hurðina við inngang hótelsins sem lá beint út á götu. Hótelið skar sig mjög úr borið saman við húsin í kring en það voru hrörleg híbýli heimamanna. Við götuna fór fram verslun og viðskipti en verslanir voru með mismundi hætti, frá því að vera með aðsetur í húsum yfir í að vera einmennings búðir. Þegar ég segi einmennings búðir á ég við í orðsins fyllstu merkingu því menn báru lagerinn á höfðinu og héldu á eintaki sem þeir buðu til sölu. Þannig gengu þeir um göturnar og er ég vissum að þetta eru minnstu verslanir í heimi.
Með tvo ábyrgðarmenn á ráðstefnuhóteli.
Ráðstefnan var haldin á hótelinu sem ég bjó á. Það var mikill léttir fyrir mig og gaf mér frelsi til að fara einni á milli innan hótel girðingarinnar. Ég var eini þátttakndinn sem bjó á hótelinu en annar ábyrgðamaður minn bjó þar líka.
Til að komast til Cameroun þurfa útlendingar að hafa tvo ábyrgðarmenn sem sannanlega munu hafa eftirlit með manni. Á ráðstefnunni voru líka aðstoðarmenn sem vöktu yfir mér og sáu um að ég hefði það sem ég þurfti. Ef ég hvarf úr augsýn var leitað og mér fylgt eftir þar til ég var komin aftur á það sem þau töldu öruggt svæði fyrir mig.
Fyrirlestrar og verkleg kennsla.
Þátttakendur í ráðstefnunni voru nálægt 150 og komu frá 12 frönskumælandi löndum í Afríku. Þemað var móðir og barn og tók ráðstefnan tvo daga. Hún var byggð þannig upp að fyrirlestar voru allan daginn en eftir hádegi var verkleg kennsal fyrir 10 – 20 manns í senn samhliða þeim.
Fyrirlesarar voru geislafræðingar og röntgenlæknar frá Afríku og þrír af Frökkunum. Tveir Frakkanna kenndu það verklega og var efni þess fyrri daginn handþvottur og sótthreinsun þegar verið er að nota nálar eða æðaleggi við inndælingu efna. Seinni dag ráðstefnunar var kennd líffærafræði í sömu hópum.
Von um meira fé í menntun geislafræðinga.
Ráðstefnan gekk mjög vel og fékk hún mikla athygli. Allar sjónvarpsstöðvar landsins, 6 talsins, komu á staðinn og fjölluðu um fagið og ráðstefnuna. Staðgengill heilbrigðisráðherra var við setningu og slit hennar en slíkt þykir mikill heiður og eru geislafræðingar bjartsýnir á að í kjölfarið verði framlag til menntunar þeirra aukið.
Menntun er það sem geislafræðinga vantar sárlega. Vegna þess að ekki eru röntgenlæknar á öllum stöðum þar sem framkvæmdar eru rannsóknir kemur það í hlut geislafræðinga að sinna störfum sem við á Vesturlöndum eigum að venjast að röntgenlæknar framkvæmi. Þetta gerir það að verkum að þörf fyrir menntun geislafræðinga er enn meiri og krafan frá þeim mjög sterk. Þátttakendur á ráðstefnunni voru því mjög áhugasamnir og voru miklar umræður og spurningar eftir hvern fyrirlestur og í verklegu tímunum. Þarna deildu geislafræðingar þekkingu, reynslu og upplýsingum um aðstæður í mismunandi löndum. Það er því óhætt að segja að þetta var meira en fyrirhafnarinnar virði, bæði fyrir þátttakendur, kennara og skipuleggjendur.
Nauðsynlegt að gera sér grein fyrir stöðu mála í hverju landi.
Það sem stendur upp úr fyrir mig sem fulltrúa alþjóðasamtakanna er að við verðum alltaf að hlusta og vinna út frá stöðu og þörf í hverju landi. Það er ekki mögulegt að við gerum nokkuð gagn ef við ætlum að vinna út frá því hvernig við sjálf teljum hlutina vera.
Önnur lexía var ég undirbjó mig ekki nægilega vel áður en ég fór í ferðina. Það verður allt að vera þaulskiplagt fyrirfram og engir lausir endar eða möguleikar á óvæntum uppákomum. Ég hélt mig hafa gert það en þegar á reyndi kom í ljós að svo var ekki. Ég veit ekki hvernig ég hefði farið að ef ég hefði ekki verið svona heppin með sessunaut.
Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að aðstæður séu öðruvísi en við eigum að venjast er mannlífið iðandi og er ég sannfærð að raunveruleg hamingja fólksins er ekki minni en í okkar samfélagi. Sleggjudómar um hvernig Afríkubúar séu og hegði sér eru fáránlegir þegar maður upplifir þeirra kringumstæður. Ég er ekki viss um að við værum mjög hraðvirk í þessu umhverfi þar sem híbýli eru fá miðað við fólksfjölda og hrörleg. Fólk er því meira og minna úti en þar er 30 – 35 stiga hiti og glampandi sól á daginn en á kvöldin grúfir myrkur yfir. Jafnvel inni á hótelinu þar sem allt var upplýst var rökkur, þannig að það seig fljótt á mann höfgi og lítið varð úr vinnu áður en maður lognaðist útaf og sofnaði.
Taka ætti sér til fyrirmyndar að kynna sér mál til hlítar áður en dómar eru felldir.
27.10.09 Katrín Sigurðardóttir.