Afmæliskveðja til Röntgen Domus 15 ára.

Ég vil byrja á að óska stjórnendum og starfsfólki Röntgen Domus til hamingju með 15 ára afmælið.
Það var að áliðnu hausti 1992 að ég var beðinn að mæta á fund hjá röntgenlæknunum á Landakoti og ræða um nýjustu CT tæknina. Viðræður við Birnu og Þorkel dagana á undan höfðu snúist um möguleika á að opna einkarekna röntgendeild.

Ný CT tækni.
Á þessum tíma var CT tæknin að detta yfir í spíralinn. Ég sjálfur hafði verið á kafi í CT tækninni síðan 1980 og vissi að framleiðendur voru búnir að vera með þetta í pípunum í nokkurn tíma og að hér var klárlega um byltingu að ræða. Á Norðurlöndum voru aðeins örfáir staðir komnir með slík tæki. Ég átti t.d. spjall við röntgenlækni á ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sem hafði stýrt innkeyrslu á spíraltæki sem einkum var notað í bráðaþjónustu. Henni fannst fáránlegt að menn hyggðust kaupa slíkan búnað í einkarekstur og taldi slíkt einungis bruðl á peningum. Sumir röntgenlæknar töldu þetta ekki verða mikið notað og þannig var það á sumum röntgendeildum. Staðreyndin var sú að möguleikarnir sem opnnuðust með spíraltækninni kröfðust töluvert mikillar sjálfstæðrar vinnu sem aðeins hluti þeirra spítala sem keyptu slíkan búnað voru færir um.

Skýr stefna fram á veginn.
Ég mætti á fundinn með fínar litaglærur sem ég hafði prentað út á nýlegan blekstrautprentara. Sumir í hópnum urðu hissa þegar þeir sáu undirbúninginn og fannst að ég tæki málefnið full allvarlega.
Eftir þennan fund var aldrei horft til baka. Gerðar voru verðkannanir, ákvarðanir teknar, samningar gerðir, húsnæði keypt, hannað, innréttað og tæki sett upp. Þetta voru spennandi tímar og unnið nótt sem nýtan dag þá mánuði sem í hönd fóru. Það tók um 6 vikur að setja tækin upp. Ný og mjög fullkomin myndgreingardeild var opnuð í Domus Medica 16. október 1993.

Tæknilega leiðandi fyrirtæki.
Síðan hefur starfsemin hjá Röntgen Domus bara vaxið og nú eru þar t.d. rekin tvö CT tæki. Hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu hefur alltaf verið skýr sýn á nauðsyn þess að framleiðnin sé há. Ein forsenda þess er hátt tæknistig. Röntgen Dómus var fyrsta röntgendeildin hér á landi til að setja upp DR tæki sem meira en tvöfaldar afkastagetu í algengustu röntgenrannsóknum og dregur úr líkamlegu álagi á starfsfólk.
Fyrsta spíral CT tækið var sett upp hjá Röntgen Domus, fyrsta fjösneiðatækið til hjartarannsókna var sett upp hjá Röntgen Domus, fyrsta DR tækið var sett upp hjá Röntgen Domus. Fyrirtækið hefur þannig verið tæknilega leiðandi á mörgum sviðum í myndgreiningu hérlendis.

Nú á þessum tímamótum er stefnt að faggildingu starfseminnar, sem er ótrúlega spennandi verkefni.

Fyrir hönd Rafarnanna þakka ég Röntgen Domus fyrir trausta samvinnu í 15 ár og óska þeim velfarnaðar um ókomin ár.

Smári.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *