Brjóstamyndataka – aðstoðarforrit

Aðstoðarforrit við úrlestur.

Eitt af því sem hæst hefur borið í myndgreiningargeiranum undanfarið eru tölvuforrit til að benda á mögulega sjúklegar breytingar (computer aided detection) og einnig til aðstoðar við sjúkdómsgreiningu (computer aided diagnosis). Mest hefur verið unnið við slík forrit fyrir lungnamyndir og brjóstamyndir.

Henta vel fyrir hópleit.
Myndir teknar við hópleit að krabbameini í brjóstum gefa bestu möguleikana vegna þess hve margar staðlaðar rannsóknir er um að ræða og fáar sjúklegar breytingar. Nauðsynlegt er að myndirnar séu stafrænar og í rannsóknum varðandi áreiðanleika aðstoðarforritanna hefur verið beitt þeirri aðferð að færa hefðbundnar brjóstamyndir yfir á stafrænt form. Þróun þessara forrita ýtir þó undir innleiðingu stafrænna brjóstamyndatökutækja.

Stafræn tækni.
Þau fyrstu komu fram í kringum 1995 en miklar samanburðarrannsóknir við hefðbundnar brjóstamyndatökur hefur þurft til að fá samþykki heilbrigðisyfirvalda fyrir notkun stafrænu tækjanna. Ekki er langt um liðið síðan slíkt samþykki fékkst hjá Food and Drug Administration (FDA) í Bandaríkjunum. Mikill kostnaður hefur einnig hindrað að stafræn brjóstamyndatökutæki ryddu sér til rúms en þau eru u.þ.b. fimm sinnum dýrari en hefðbundin tæki.

Kostir stafrænu tækjanna…
Niðurstöður rannsókna sýna að stafræn brjóstamyndataka nýtist að minnsta kosti jafn vel til sjúkdómsgreiningar og sú hefðbundna. Flestir telja hana hafa yfirburði og nefna þá minna geislaálag, meiri svertumun (contrast), að mynd fæst á skemmri tíma (engin framköllun), þægilegri geymsluaðferð (engar filmur), auðveldara aðgengi að myndum (alltaf tiltækar í tölvunni), eftirvinnslumöguleika, möguleika á fjargreiningu og… síðast en ekki síst… möguleika á notkun aðstoðarforrita við greiningu.

… og gallar.
Helstu gallar eru að upplausnin (detail resolution) er enn ekki alveg jafn góð og á hefðbundnum myndum, kostnaður við hverja rannsókn er hár og vandi getur verið að nota eldri myndir á filmu til samanburðar.

Kostirnir vega þungt.
Kostirnir virðast ótvírætt fleiri en eins og í öðrum málum sýnist sitt hverjum. Það á einnig við um notkun tölvuforrita til aðstoðar röntgensérfræðingum. Heyrst hafa þær raddir að slík forrit gætu veitt falska öryggiskennd. Einnig að þau auki alls ekki öryggi í greiningu þar sem fyrir eru færir röntgensérfræðingar. Sumum finnst þetta jafnvel minna á vísindaskáldsögur eins og t.d. Star Trek þar sem læknirinn er eingöngu tölvuforrit með almynd (hologram) og hægt að kveikja og slökkva á honum eftir þörfum!

Framtíð/Nútíð.
Hvað sem því líður er aðstoð tölvu við skoðun brjóstamynda tvímælalaust hluti af framtíð okkar. Hún byggist fyrst og fremst á að merki birtast þar sem óeðlilegur þéttleiki er á myndinni, t.d. kalkanir, og þarfnast nánari skoðunar. Einnig eru til forrit þar sem að auki birtist uppástunga um sjúkdómsgreiningu.
Rannsóknir hafa sýnt að 15% fleiri af þeim sjúklegu breytingum sem fyrir hendi eru finnast ef tveir röntgensérfræðingar skoða sömu myndir hvor á eftir öðrum. Það er nokkuð hátt hlutfall og þessi aðferð því víðast notuð.
Tölvukerfi sem benda á grunsamleg svæði finna u.þ.b. 90% slíkra breytinga. Vel má því hugsa sér að þau komi í stað annars röntgensérfræðingsins. Það gæti til lengri tíma litið verið ódýrara, tölvan er alltaf til staðar og alltaf jafn áreiðanleg (þreytist aldrei þó vinnuálagið sé óheyrilegt og líður alltaf jafn vel í vinnunni!).
Einungis eitt svona tölvukerfi hefur enn sem komið er hlotið samþykki FDA en öll þróun í myndgreiningu er ör og hvenær notkun slíkra kerfa verður almenn leiðir framtíðin í ljós.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *